Jæja, þetta var nú meiri helförin á Preikestolen í dag. Heilum frídegi nánast sóað til að valsa um hráblautur og ógeðslegur á fjöllum í félagsskap maðka og skordýra í niðaþoku og rigningu. Þó var logn en það nægði ekki til að bæta fyrir allt hitt. Þessi mynd er af mér þar sem ég stend á Preikestolen í 604 metra hæð yfir Lyse-firði. Ég gæti auðveldlega hafa tekið hana nánast hvar sem er annars staðar og sagst bara hafa verið þarna en geri það þó ekki.
Skyggni á þessum ægifagra útsýnisstað var kannski 10 metrar ef það þá náði því. Til þess að ná þessum áfanga þurftum við að klífa urð og grjót, troðast gegnum skóglendi og vaða að minnsta kosti níu læki og sprænur. Það var ekki þess virði. Það versta er að við þurfum að endurtaka þetta hryllilega ferli síðar í góðu veðri til að ná almennilegum myndum! Við höfum alla vega lært þá dýrmætu lexíu að kaupa ekki svona ferðir fyrir fram heldur skella okkur bara í ferjuna einhvern sólskinsdag og borga á staðnum. Hún siglir á eins og hálfs tíma fresti allan daginn.
Ferðasagan er þá svona: Við gengum niður í bæ upp úr tíu í morgun bara til þess að missa af ferjunni sem við áttum bókaða ferð með klukkan 11. Það kostaði rölt um miðbæinn í einn og hálfan tíma innan um milljón ferðamenn úr tveimur stærðar skemmtiferðaskipum sem lágu við bryggju…og ekkert opið nema 7-11! Norðmenn kunna að halda uppstigningardag heilagan, svo mikið er víst. Veitingastaðir opnuðu svo reyndar almennt um eftirmiðdaginn. (MYND: Á barnum í Fjellstua að hita upp með nokkrum laufléttum.)
Við náðum ferjunni í næstu tilraun og sigldum yfir til Tau sem er smábær handan Gandsfjorden og eins og klipptur út úr Grimms-ævintýrum eða einhverju álíka. Þar beið okkar rúta með nánast einhentum bílstjóra. Hægri höndin á honum var í það minnsta svo sködduð að hún var nánast bara einn fingur og rútan beinskipt til að kóróna það. Einu farþegarnir fyrir utan okkur í 50 manna rútu voru tveir erlendir hommar.
Sá einhenti rúllaði akstrinum upp og eftir hálftíma vorum við á bílastæðinu þaðan sem lagt er upp í gönguna. Það er mjög flottur staður og auk farfuglaheimilisins Preikestolhytta er komið þarna flott hótel og veitingastaður undir heitinu Fjellstua. Þar var sem betur fór bar og skelltum við í okkur einni flösku af hvítvíni til að hita upp fyrir gönguna. Það átti eftir að verða kærkomið veganesti.
Klukkan 14:18 hófum við göngu og var veður alveg bærilegt en lágskýjað mjög. Þetta byrjaði ágætlega en svo seig tiltölulega hratt á ógæfuhliðina með þoku og allra verstu tegund regns, hárfínum og þéttum úða sem er hundraðfalt verri en grenjandi rigning. Eftir klukkutíma var ég búinn að fá nóg en fór þetta á þrjóskunni og kortéri seinna stóðum við á Preikestolen og sáum ekki glóru. Við tókum þar myndir sem gætu hafa verið teknar í gufubaðinu í Laugardalslauginni en tókum þær samt. Samloku og sódavatns neytt. (MYND: Á meðan allt lék í lyndi. Gangan nýhafin í fínu veðri. Það átti eftir að breytast.)
Nú byrjaði martröðin fyrir alvöru. Síðasta rúta til baka niður í Tau átti að fara klukkan 16:45, eftir sléttan klukkutíma. Hófst þar með örvæntingarfullt hlaup niður í gegnum fen, mýrar, ár og læki þar sem við tróðumst fram hjá minnst 100 manns sem lölluðu þetta á norska hraðanum. Ég var nær dauða en lífi þegar við hlupum inn á bílastæðið á slaginu 16:45, ötuð drullu upp fyrir haus. Engin rúta. Ég reitti hár mitt í bræði sem var þó erfitt og bölsótaðist mjög. Ætlaði ekki að trúa því að loksins hefði eitthvað gerst á réttum tíma í þessu landi og sá einhenti brunað í burtu á slaginu. Enda var það að sjálfsögðu ekki raunin. Klukkan fimm birtist rútan, 25 mínútum á eftir áætlun. Sá einhenti baðst grátandi afsökunar og ók í snarhasti af stað með hálfa rútu af fólki til Tau.
Ég get ekki lýst viðbjóðnum að sitja í rennblautum skrúða í rútu og til að kóróna allt kom ég brátt auga á fagurgrænan maðkdjöful, vel feitan, sem hlykkjaðist eftir vinstra lærinu á mér. Ógeð. Næst tók við andstyggilegur hálftími í ferjunni og loks fyrsti sólargeislinn í langan tíma: Gin & tónik á Harbour Café í miðbænum. Hvílík sæla að komast svo heim, beint í náttslopp og með sjóðheitt neskaffi upp í rúm. En sú seigfljótandi martröð. En þetta var að minnsta kosti uppstigningardagur í orðsins fyllstu. (MYND: Rósa á stólnum. Þarna er svakalegt útsýni á góðum degi…dagurinn í dag var það ekki.)