Það er kristalstært að Pastabakeriet.no hérna niðri við Flintergata er bar mánaðarins ef ekki ársins á atlisteinn.is. Þarna er áfengi selt eftir vigt. Þekkja lesendur það hvimleiða vandamál að ætla að fá sér hvítvínsglas á veitingastað og fá þá afhent stærðarinnar glas með einhverjum lögboðnum 10 sentilítrum sem eru um það bil einn og hálfur sopi fyrir sæmilega verseraðan drykkjumann, hvað þá tvo? (MYND: Þau kunna sitt fag á Pastabakaríinu, bardaman lét sig ekki muna um að hella í glasið, steyta hornin og horfa í myndavélina, allt á sama fagra augnablikinu.)
Pastabakeriet hefur fundið lausnina. ‘Þú segir bara til,’ sagði ungur kvenvert brosandi og lét vaða í glasið. Ég var eins og eitt spurningarmerki þar til hún benti á áhaldið sem glasið stóð á. Það reyndist vera vigt. ‘Vi selger vin etter vekt,’ bætti hún við til skýringar og sannleikurinn vitraðist mér jafnnákvæmur sem álagningarseðill frá Ríkisskattstjóra.
Ef þetta er ekki viðskiptahugmynd framtíðarinnar veit ég ekki hvað. Ég hikaði hvergi og bað hana að stútfylla glasið, þeim mun lengra yrði þar til hún þyrfti að fylla það á ný. Svo settist ég sæll út í sólina með mannsæmandi glas sem entist mér átta mínútur í stað tveggja.
Þess vegna útnefni ég Pastabakeriet.no bar mánaðarins á atlisteinn.is. Þér skuluð ekki aðra bari hafa. Auk þess eru þeir með þokkalega ætt pasta sem er svo sem aukaatriði.