Arion Ultra Plus, þessi ágæta nafngift margnefndasta banka Íslandssögunnar heggur ansi nærri hinu góðkunna Ariel-þvottadufti. Vonandi tengist það þó ekki þvotti peninga heldur fremur nafni þeirrar grísku goðsagnapersónu sem því er ætlað að endurspegla en sá var víst tákn sameiningar og endurreisnar auk þess að hafa verið fyrsti verðbréfamiðlarinn. (MYND: Gríski töffarinn Arion lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna)
Verðugt verkefni sagnfræðinga verður að halda utan um öll þau nöfn sem ein og sama bankastofnunin hefur gegnt síðan árið 2003. Í maílok það ár gengu Kaupþing og Búnaðarbankinn sálugi frá 1929 í eina sæng og úr varð Kaupþing Búnaðarbanki hf. Ekki leið langur tími þar til þessi samsteypa tók upp titilinn KB banki hf. með tilheyrandi breytingum á skiltum, öllu bréfsefni og greiðslukortum. Næst varð Kaupþing banki hf. til, í daglegu tali Kaupþing, sem eftir röð óheppilegra tilviljana haustið 2008 tók upp nafnið Nýja Kaupþing hf. Síðasta afsprengið er svo hinn nýborni Arion banki hf.
Sex nöfn á sex árum jafngildir að meðaltali nýrri nafngift árlega og varla líða því nema mánuðir þar til stjórnendur bankans þurfa að taka til við að sjóða upp sjöunda nafnið enda gamalt og gott slagorð bankans Think ahead eða Hugsum fram á við. Verði efnt til hugmyndasamkeppni um næsta nafn bendi ég á heilsteypt og þægilega alþjóðlegt nafn: Matador banki hf. (MYND: Þessi félagi er ekki síður magnaður en þar er kominn arion lusitanicus, hinn geðþekki spánarsnigill)
Annars er gaman að rifja upp annað dæmi um virðulegt og fornt hugtak sem hljómar eins og beint úr heimi auglýsinga og markaðsafla. Mér er minnisstætt þegar ég ungur sat á skólabekk og heyrði fyrst rætt um Liber extra, hina gríðarmiklu kirkjutilskipun Gregoríusar páfa IX frá 1234 sem var upp á 1.057 blaðsíður. Mér flaug hins vegar fyrst í hug að Liber extra hlyti að hafa verið fyrsta dömubindið.