Bad news on the doorstep…

arrogant frogI couldn’t take one more step. Muna lesendur eftir þessari ágætu ljóðlínu úr American Pie sem Don McLean flutti okkur svo eftirminnilega hér um árið? Jæja, þetta rættist hjá karlinum, við komumst ekki til Íslands um hátíðirnar (sumir skrifa hátíðarnar, ég hef aldrei skilið hvers vegna). Rósa fær ekki frí um jólin og hið ágæta flugfélag SAS krefur okkur um 12.000 norskar krónur fyrir að ferja okkur til Íslands fyrir áramótin og ég er hreinlega ekki nógu brjálaður til að greiða þeim þá uppæð fyrir flutning á mér. Er flugvélabensín dýrara í desember en aðra mánuði? Við munum sem sagt eiga okkar fyrstu jól OG áramót í Noregi núna eftir mánuð og komum að öllu óbreyttu næst til Íslands 23. júní 2012. Ég gæti talið upp allt sem við munum missa af við þetta, svo sem át á KFC og fleira, en ég er svo sem búinn að tönnlast á því í fyrri pistlum. (MYND: Frakkland er ekki eitt af mínum löndum þegar kemur að léttvíni en Arrogant Frog er undantekningin sem sannar þá reglu. Létt, ferskt og bragðgott hvítvín með ávaxtakeim.)

Hefðbundið vetrarveður fyrir suðvesturhluta Noregs hefur haldið innreið sína, rok og rigning. Við ákváðum þess vegna, eins og hann Örn félagi minn uppi í Bergen, að halda okkur bara heima og hlusta á vindinn með Bailey’s-blandað kaffi, vodka og hið ágæta hvítvín Arrogant Frog við höndina og Jón Reiðufé og Bubba á fóninum. Með þeim fyrrnefnda á ég auðvitað við Johnny heitinn Cash sem ég hef fengið nokkurt dálæti á nú hin síðari ár. Sagt er að lagið Ring of Fire hafi hann samið einhverju sinni er óvenjusvæsin gyllinæð herjaði á hann en það fékkst aldrei staðfest.

Fyrir utan Johnny Cash hef ég fengið einstakt dálæti á hinu norska meðlæti ertestuing sem er nú ekki flóknara að gerð en svo að þar er um að ræða maukaðar grænar baunir. Þetta er haft með ýmsum mat hér, svo sem lutefisk, kjötbollum og fleiru og er bara hreint sælgæti, eiginlega miklu betra en hefðbundnar grænar baunir sem er merkilegt þar sem þetta er nákvæmlega sami hlutur. Kaupa má baunakássu þessa tilbúna í 800 gramma pokum og inniheldur hún þá vott af smjöri og salti en er 97 prósent grænar baunir ef marka má umbúðirnar. Ég mæli hiklaust með þessu sælgæti þótt útlitið sverji sig meira í ætt við niðurgang ungbarns en matvæli. Slíkt er ekki óalgengt hér, einn vinsælasti jólamatur Norðmanna, pinnekjøtt, lítur viðbjóðslega út. Reyndar veit ég ekki enn hvernig það bragðast en mun komast að því næsta laugardag þegar við förum á hefðbundið norskt julebord með vinnufélögum Rósu. (MYND: Þetta gæti hæglega verið niðurgangur eða gubb í dalli en er í raun ertestuing, gómsætt norskt meðlæti.)
ertestuing
Fyrirbærið julebord er mjög stór þáttur í norskum desembermánuði. Svo stór að lögreglan verður meira að segja með sérstakan viðbúnað í miðbæ Stavanger þegar julebordsesongen skellur á. Þetta er í raun jólahlaðborð en þrátt fyrir mat á borðum líkist julebord mun meira gömlu íslensku jólaglöggunum að því leyti að þar er á ferð hreinræktað gamaldags fyllerí með öllu tilheyrandi. Flestir vinnustaðir taka sig saman og fara á julebord og veitingastaðirnir gera mikið út á þetta. Sumir auglýsa julebord fyrir 2 – 100 manns. Rósa fór á julebord í fyrra með Nortura, sláturhúsinu okkar góða, ég var hættur þá og farinn að vinna aftur á spítalanum. Þá var sérstaklega auglýst blátt bann við að taka myndir á jólaborðinu og setja á Facebook. Það segir kannski meira en mörg orð.

Aðalmeðferð í Hells Angels-málinu hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 09:15 í fyrramálið og varðar brottvísun Leif Ivar Kristiansen og Jan Anfinn Wahl frá Íslandi í febrúar í fyrra. Leif Ivar er forseti Hells Angels í Trondheim og er í raun æðsti maður samtakanna í Noregi þótt það sé ekki opinber titill hans. Það verður mjög forvitnilegt að fylgjast með hvernig dómur í þessu máli fellur. Brottvísun þeirra félaga, sem voru á leið í veislu á vegum MC Iceland (nú Hells Angels á Íslandi), er í raun klárt brot á EES-samningnum og gamla EFTA-samningnum en báðir eiga meðal annars að tryggja frjálsa för fólks milli aðildarríkjanna. Í raun þarf héraðsdómur að svara þeirri spurningu hvort aðild manna að ákveðnum félagasamtökum geti vikið ákvæðum alþjóðasamninga til hliðar. Það er ansi stór spurning. Ég vænti þess að íslenskir fjölmiðlar liggi yfir málinu og upplýsi okkur aflandsmenn í Noregi vel og rækilega.

Talandi um Íslendinga í Noregi gerði Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 strandhögg hér og tók ágæt viðtöl við Íslendinga sem búa og starfa í Leirfjord í Nordland-fylki. Þetta var svo birt í Íslandi í dag núna fyrir helgina í tveimur hlutum, skylduáhorf fyrir fólk sem er að velta því fyrir sér að reyna fyrir sér á norskum vinnumarkaði. Alveg þess virði að horfa á hérna og hérna.

Athugasemdir

athugasemdir