atlisteinn.is eins árs

satanic barn

Í dag, 1. febrúar 2010, fagnar vefsíðan atlisteinn.is eins árs afmæli sínu. Það verður að teljast táknrænt að afmæli menntamálaráðherra ber upp á sama dag enda hafa listir og menningarmál ætíð skipað veglegan sess og verið í fyrirrúmi í allri umfjöllun og efnistökum síðunnar. Má þar nefna ítarlega pistla um gyllinæð, brjósklos og heiftarlegan niðurgang í World Class Laugum sem varð næstum tugþúsundum að bana vorið 2005 þótt það hafi aldrei lekið út (bókstaflega).

Afmælisbarnið hefur eðlilega tekið tennur og misst aðrar tennur. Óvægin þjóðmálaumræða hefur verið eitt af aðalsmerkjum atlisteinn.is það ár sem vefsetrið hefur vanhelgað rotin iður lýðnetsins með súru galli sínu, óværu og óþægilegum staðreyndum sem minna gjarnan óþyrmilega á sig þegar minnst vonum varir á hryllilegum, skyndilegum og óyndislega raunverulegum mánudagsmorgni skynfæranna, einna líkustum þrútnum ristli við upphaf biturrar iðrakveisu. Þá bitu engin vopn.

Fáir ganga þess þó duldir að um atlisteinn.is megi hafa fræg orð breska forsætisráðherrans Winstons Churchill er hann viðhafði um orrustuna um Bretland: ‘Aldrei hafa svo margir átt svo fáum svo mikið að þakka.’

Héðan verður stefnan aðeins tekin upp á við og þjóðfélagsrýnin hafin á nýtt og enn metnaðarfyllra plan. Hugheilar þakkir færi ég tæknimeistara mínum, Ríkharði Brynjólfssyni hjá Miðneti, og öllum þeim lesendum sem litið hafa inn á síðuna, margir hverjir reglulega, skilið þar eftir athugasemdir og fært mér hvatningu. Lesið áfram um ókomna tíð meðan legvatn samfélagsins streymir blóðlitað úr penna í skjálfandi hendi. Að þessu sögðu færi ég menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, kærar kveðjur á 34 ára afmælisdaginn sem fellur svo fagurlega saman við þennan fyrsta afmælisdag atlisteinn.is.

Athugasemdir

athugasemdir