Vegna fjölda áskorana hefur sérlegur tölvuráðunautur minn og almennur snillingur í tæknimálum, Ríkharður Brynjólfsson, látið verða af því að koma upp athugasemdakerfi hér á síðunni. Lesendum er sem sagt gert kleift síðan núna einhvern tímann í vikunni að rita athugasemdir við einstakar greinar og pistla.
Margir höfðu sent mér póst og kvartað sáran yfir vöntun þessa möguleika og hefur nú verið bætt úr annmarkanum. Eins kvarta margir yfir því að ég sé ekki á Facebook en ég ræddi það á sínum tíma ítarlega í þessari grein (skruna niður að fjórðu grein ofan frá) hver viðhorf mín eru í þá átt. Þriðji hópurinn kvartar svo yfir því að ég gangi um nakinn heima hjá mér fyrir opnum tjöldum og vaski jafnvel upp nakinn en það eru nú reyndar bara nágrannar mínir hér í botnlanganum og þar með frekar fámennur hópur.
En alla vega, til hamingju með athugasemdakerfið og engar langlokur um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hvalveiðar og Evrópusambandið.