Fréttir Ríkisútvarpsins í kvöld og í gærkvöldi voru athyglisverðar. Vísa ég þar einkum til upprifjunar á fréttaflutningi haustsins 2008 þar sem Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður sagði frá því þegar hún og myndatökumaður RÚV urðu fyrir tilviljun vitni að leynifundum bankastjóra í Stjórnarráðinu og fjármálaráðuneytinu.
Fróðleg viðtöl við þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fylgdu fréttinni þar sem hann þverneitaði því að um væri að ræða nokkuð annað en hefðbundna fundi þessara aðila og allt væri í stakasta lagi. Þar með eru komnar fram óyggjandi sannanir þess að forsætisráðherra laug kinnroðalaust að þjóðinni og þótti greinilega ekkert sjálfsagðara. Gleðisnautt brosið og uppgerðarsannfæringin á sínum stað og þjóðin á góðri siglingu í útrásinni. Ekki má gleyma því að lífeyrissjóðakerfið stóð styrkum fótum svo maður rifji nú upp eina frægustu klisju Geirs.
Fyrir nokkrum dögum birtist maðurinn svo í spjallþætti Fredriks Skavlan og segist hafa hreina samvisku! Reyndar játaði hann að ríkisstjórn hans hefði þó ekki gert allt rétt. Það hefði verið gaman að heyra nánar um það hvað Geir taldi ríkisstjórnina hafa gert rétt. Þar hefði án efa komið fram löng afrekaskrá um lífeyrissjóði, fiskveiðistjórnun og skattalækkanir. Allt tær snilld rétt eins og Icesave-reikningar Sigurjóns Árnasonar. Athyglisvert er núna að rifja upp þann hroka og þótta sem Geir sýndi (íslenskum) fréttamönnum alla jafna á meðan hann laug glottandi að þjóðinni. Til hamingju Ísland.