Ár var alda (þat er ekki var…)

susUm leið og sumarið þróast inn í það sem við fyrstu sýn virðist ætla að verða mjög ánægjulegt haust ríða ýmis minnisverð tímamót yfir. Í dag er eitt ár síðan ég lét af störfum hjá Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger eftir samtals tólf og hálfs mánaðar starf sem þó fór ekki fram í einni samfelldri lotu. Ekki er morgundagurinn ómerkilegri en þá, 1. september, verður eitt ár liðið síðan ég hóf störf hjá núverandi vinnuveitanda, NorSea Group, og dembdi mér þar með inn í hjarta norsks iðnaðar, olíuna.

Fleiri hafa ástæðu til að líta grátandi um öxl á morgun og horfa til ljúfsárra æskuminninga. Gestur Ben Guðmundsson vinur minn hér í Noregi fagnar þá 46 ára afmæli sínu og Borghildur Hauksdóttir, vinkona okkar Rósu og ómetanleg aðstoðarmanneskja við framkvæmd brúðkaups okkar í sumar, á einnig afmæli og færist nær stórum afmælisdegi næsta ár. Alltaf er haustið boðberi breytinga og tímamóta, sennilega leifar frá því að maður var í skóla.norsea logo

Á ókristilegum tíma á þriðjudagsmorguninn hófum við hjónin nýtt átak sem ætlað var að gera lífið eftir vinnu örlítið þægilegra. Þetta felst í því að mæta í City Gym og taka á stálinu klukkan 05:45 á morgnana og bruna svo þaðan klukkan 07:00 og mæta í vinnu fersk og endurnærð einhvern tímann milli sjö og átta (fer eftir stöðu umferðar milli Sandnes og Sola hvern og einn dag).

Þetta er vonlaust án bifreiðar til afnota, þegar við þurfum að vera mætt í strætó klukkan 06:15 til að merja það í vinnuna (í mínu tilfelli) rétt fyrir 08 æfir maður ekki mikið í morgunsárið. Nú erum við einmitt með bíl í tvær vikur vegna bakvaktar og því tilvalið að prófa morgunkerfið en svo stefnir allt í bifreiðakaup um miðjan september eins og ég hef boðað hér áður. Mun það breyta lífi okkar verulega til batnaðar þótt ekki hafi það svo sem verið neitt slæmt fram að þessu, alla vega nægur tími til að lesa í strætó.

Haustið hér er býsna skemmtilegur tími. Kólnandi veður og skemmri sólargangur er boðberi brennivíns og arinelda og ævintýri líkast að sjá reykinn liðast upp úr skorsteinum um gjörvallt Stavanger-svæðið, hvergi þó eins myndrænt og í Våland-hverfinu í Stavanger, helst séð ofan af 5. eða 6. hæð háskólasjúkrahússins. Þá er maður hreinlega bara staddur einhvers staðar í Grimms-ævintýrum, fyrir utan að kaffið er sennilega mun verra á sjúkrahúsinu, daunillt sull úr vél.

Athugasemdir

athugasemdir