Ár í Nesinu og upplestrarfrí

gangeren66Í dag teljumst við hafa búið eitt ár hér í Sandnes (-i fyrir þá sem vilja beygja upp á íslensku), að minnsta kosti miðað við það sem ég setti í tilkynningu mína til Folkeregisteret þótt í raun hefðum við sofið okkar fyrstu nótt hér aðfaranótt 29. apríl, mitt í einni hroðalegustu flutninga- og þrifahelgi sem ritað hefur verið um síðan ritun hófst en það gerði ég hér. (MYND: Þarna á miðhæðinni höfum við alið manninn síðasta árið, svalirnar okkar eru á bakhliðinni, kannski eins gott.)

Þetta hefur verið hið besta ár þannig séð, héðan er nákvæmlega jafnlangt fyrir okkur í vinnuna og var frá Stavanger, við fórum í mun ódýrara, en ekki að ráði minna, húsnæði og fengum bílskúr í kaupbæti þótt hann fái ekki merkilegra hlutverk en sem geymsla fyrir þann hluta búslóðarinnar sem þolir óupphitað húsnæði með tilheyrandi ágangi skordýra og annarra lægra settra einstaklinga í fæðukeðjunni.

Frá og með afloknum vinnudegi í dag er hafið upplestrarfrí fyrir próf hér á heimilinu og stendur fram í næstu viku. Hálf vikan þar á eftir fer í það sama en frá og með 16. maí fellur lífið í skorður á ný.

Við þykjumst ætla að vakna klukkan átta í fyrramálið og hefja lestur af krafti. Það skelfilega er að það verður sennilega ekkert mál. Það líður varla sá dagur núna að maður sé ekki glaðvaknaður klukkan hálfsex eða á öðrum álíka firrukenndum tíma á morgnana og nái með herkjum að pína sig til að sofna á ný þar til síminn (í ham vekjaraklukku) hringir, ef það þá tekst. Helst þarf Bakkus að hafa átt leið um til að unnt sé að hvílast örlítið lengur en það er þó alveg undir hælinn lagt.

Reynt verður að halda uppi daglegum heimsóknum í City Gym meðan á próflestri stendur en ég játa að ég er ekki alveg í æfingu með að sitja yfir fræðum fagra vordaga. Sennilega hef ég ekki verið í vorprófum síðan vorið 2000 þegar ég lauk BA-prófi en öll prófnámskeið í MA-náminu 2008 – 2010 lentu á haustönnunum að því er mig minnir á meðan vorin fóru í lokaverkefni og ritgerðir.

Við erum bæði farin að hlakka töluvert til að ljúka þessu öllu saman og svei mér þá ef maður fær sér ekki eins og eitt glas um hvítasunnuna til að fagna þeim áfanga…eitt stórt.

Að lokum óska ég Íslendingum til sjávar og sveita stórkostlegs verkalýðsdags á morgun og smjörs af hverju strái.

Athugasemdir

athugasemdir