Án dóms og laga – loksins

justiceiiVegna fjölda áskorana birti ég hér MA-ritgerð mína í blaða- og fréttamennsku við HÍ sem ég lagði fram núna í lok apríl. Beðist er velvirðingar á að hún spratt ekki upp hér í síðustu viku. Ritgerðin ber titilinn Án dóms og laga – Um nafnbirtingar grunaðra afbrotamanna og fjallar, eins og sumir kynnu að ráða af nafninu, um nafnbirtingar grunaðra sakamanna í fjölmiðlum áður en dómur fellur í máli þeirra eða ákæra er gefin út. Án þess að vera að tyggja í löngu máli upp hluti sem koma glögglega fram í ritgerðinni sjálfri var lagt upp með þríþætta rannsóknarspurningu sem sneri að skoðun meintra eða dæmdra afbrotamanna á málinu og starfsreglum íslenskra fjölmiðla um nafnbirtingar auk fjölmiðla á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Hollandi, á Írlandi og í Þýskalandi.

Hugmyndin að ritgerðarefninu datt inn þegar ég var við það að festa svefn að kvöldi annars dags páska 2009. Hafði ég þá um daginn hlustað á ágætt viðtal á Bylgjunni við tónlistarmann sem fjallað hafði verið um með fullu nafni í að minnsta kosti einum fjölmiðli í tengslum við fíkniefnamál. Ég hafði þá átt í miklu innra stríði við að velja ritgerðarefni enda ár í útskrift og fátt verra en að vera enn að reita hár sitt (sem reyndar er ekkert) yfir efnisvali þegar komið er á lokaönnina sjálfa. Þar var ég minnugur BA-ritgerðarinnar minnar fyrir áratug þar sem ég valdi mér leiðbeinanda fyrst og við fundum svo efni í sameiningu. Slíkt jaðrar við að vera ekki nógu gott.

En þarna var þetta sem sagt ljóslifandi komið um páskana í fyrra og nærtækast að velja dr. Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing sem leiðbeinanda. Hann samþykkti það vafningalaust og rækti hlutverk sitt allan tímann af miklum krafti og áhuga sem ég gat ekki annað en smitast af þótt ég hafi á tímabili varla ætlað að hafa mig í þetta verkefni.

Hryggjarstykkið í ritgerðinni er álit 50 íslenskra afbrotamanna, eða grunaðra afbrotamanna sem síðar hlutu sýknudóm, á nafnbirtingum. Þeir sem leitað var til höfðu allir verið nafngreindir í fjölmiðlum sem grunaðir menn fyrir afbrot eða meint afbrot framin tímabilið 1994 – 2009. Að langmestu leyti var leitað til þessa fólks með hliðsjón af fjölmiðlaumfjöllun síðustu ára og satt að segja held ég að ég hafi skrifað upp tæplega 30 manns eftir minni.

Til að stytta langa sögu neitaði enginn þeirra, sem leitað var til, að taka þátt í könnuninni sem taldi átta fjölvalsspurningar og níundu spurningu þar sem þátttakendum bauðst að skrifa texta frá eigin brjósti. Öllum, sem ég hafði samband við, fannst rannsóknin athyglisverð og vel þess virði að framkvæma en ég átti ekki bein samskipti við alla þátttakendur heldur naut ég einstakrar aðstoðar Atla Guðjóns Helgasonar lögfræðings sem fór með spurningalista frá mér til fólks í afplánun og nálgaðist auk þess aðra sem voru að ljúka afplánun sinni á Vernd eða voru að fóta sig í samfélaginu á ný gegnum Ekron, atvinnutengda starfsþjálfunarmiðstöð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Rétt er að hér komi fram að auk nafna míns er ég innilega þakklátur öllum sem lögðu skoðun sína á vogarskálina og tóku sér tíma til að svara spurningum mínum. Femínistar fyrirgefa mér vonandi nokkuð dapurt kynjahlutfall, fjórar konur á móti 46 karlmönnum. Undirheimar Íslands eru mjög karllægur vinnustaður ef svo má að orði komast.

Eins er ég þakklátur yfirmönnum á innlendum fjölmiðlum og hinum og þessum aðilum á þeim erlendu sem lögðu flestir metnað í að svara spurningum mínum til þeirra. Mjög góð svör bárust til dæmis frá DV, Fréttablaðinu og RÚV heima og Aftenposten hér í Noregi, breska blaðinu Guardian (ég fékk beinan aðgang að lögfræðingi blaðsins) og írska ríkisútvarpinu RTE að öllum öðrum ólöstuðum.

Hér að neðan getur áhugasamt fólk um þetta efni smellt á tengil sem vísar á ritgerðina. Hálft verkefnið, 15 einingar af 30, var verklegt og valdi ég að stjórna umræðuþætti um nafnbirtingar á Bylgjunni. Þar fékk ég til mín dr. Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing, Friðrik Þór Guðmundsson blaðamann, Reyni Traustason ritstjóra og Einar Marteinsson, forseta vélhjólaklúbbsins MC Iceland. Þáttinn má hlusta á með því að smella hérna og skruna niður að þættinum frá 4. apríl.

Ritgerðin

Athugasemdir

athugasemdir