Þetta er tillaga mín að nýjum rithætti á nafni þessarar stofnunar eftir að hafa skemmt mér dável yfir örvæntingarfullum flokksformönnum í Silri Egils í dag í kjölfar glæsilegs sigurs hugsandi Íslendinga í kosningum um Icesave III í gær.
Ég óska Íslendingum til sjávar og sveita innilega til hamingju með að hafa ákveðið að láta ekki erlendar þjóðir í þúsundasta skiptið bregða snöru um háls þeirra. Það var jafnt ömurlegt sem broslegt að horfa á máttlausar og fálmkenndar tilraunir Steingríms Jóhanns Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að telja Íslendingum trú um að allt sé í góðu horfi á stjórnarheimilinu í Silfri dagsins.
Annars er ég að ná mér af pestinni en þakka fyrir að eiga mánudagsfrí. Hugsa að ég mæti samt í taekwondo á morgun, nóg hefur verið étið um helgina. Það kostaði sitt í mat og brennivíni að sitja yfir kosningavöku í alla nótt en svo lyftum við okkur að auki aðeins upp í kvöld eftir kosningaúrslitin og skelltum okkur á kvöldverð á Harbour niðri í bæ auk þess að þamba brennivín á Munken á eftir. Ég finn mig strax fitna.
Ég ætti svo sem að láta mér í léttu rúmi liggja hvernig þessi Icesave-mál fara, heilt ár liðið síðan ég flutti frá Íslandi meðal annars vegna þeirra. En auðvitað er manni ekki sama innst inni. Þetta er jú mín þjóð þannig séð.
Mikið er ég samt feginn að vera kominn hingað til Noregs og búinn að koma mér fyrir á vinnumarkaði jafnt sem í samfélagi. Það er erfitt að greina mikla framtíðarsýn á íslenskum vinnumarkaði núna, eiginlega ómögulegt.
Jæja, nú drattast ég í rúmið, klukkan er að verða tvö að nóttu að norskum tíma. Til hamingju Ísland.