Allt er í heiminum hverfult

tolva daudansVonandi gafst sem flestum færi á að lesa ferðasögu mína frá Íslandi um áramótin og skýrslu um viðkomu í Bergen á heimleiðinni frá Íslandi því þessir pistlar eru nú að eilífu horfnir inn í eitthvert rafrænt svarthol sem ég kann ekki að skýra að fullu. Í sem stystu máli hrundi vefurinn ásamt nokkrum fleiri vefjum sem vistaðir eru hjá sama aðila og síðustu tveir pistlar mínir urðu þessum hamförum að bráð.

Ég geymi ekki önnur afrit af pistlatextum en þau sem vistuð eru í vefumsjónarkerfinu og því eru þessir textar horfnir sem er auðvitað sorglegt þar sem síðan er öðrum þræði dagbók og skráning á atburðum í lífi mínu en ég get nú varla verið að væla mikið yfir því þar sem ég held einnig dagbók á pappír svo sem komið hefur fram hér en framsetning þeirra skrifa er auðvitað önnur og öll ágrips- og yfirlitskenndari eins og Ármann Jakobsson skrifaði einhvern tímann sem athugasemd í frekar kléna ritgerð sem ég skilaði honum í námskeiðinu Bókmenntir síðari alda vorið 1998 og hitti þar algjörlega naglann á höfuðið.

Sem sagt enginn heimsendir úr því brottfallið var ekki meira en raun ber vitni og við hefjum tárvot augu til himins og berjumst áfram að dauðans óvissa tíma.

Athugasemdir

athugasemdir