Algjört grundvallarrit um lóðarí!

strengthiiStrength Training Anatomy eftir Frakkann Frédéric Delavier er ítarleg leiðbeiningabók um líkamsrækt með lóðum sem ég get ekki látið hjá líða að dásama hér. Delavier er fyrrum ritstjóri PowerMag í Frakklandi en starfar nú sem blaðamaður hjá Le Monde de Muscle og hefur augljóslega marga fjöruna sopið í massabransanum.

Þær eru ófáar líkamsræktarbækurnar og -blöðin sem ég hef leitað fróðleiks í þau 22 ár sem ég hef glímt við stálið í átta líkamsræktarstöðvum (lengst af hjá Birni Leifssyni í World Class) en hvergi hef ég fundið svo margslunginn fróðleik og gagnlegan sem í bók Delaviers. Í sjö köflum fer hann kerfisbundið yfir alla vöðvahópa og tínir til fjölda æfinga í hverjum kafla. Vendilega er farið yfir ólíka virkni mismunandi æfinga á ólíka hluta hvers vöðva og skýrt með nákvæmni skurðlæknisins hvar átakið lendir með því að gera sömu æfingu í mismunandi útfærslum, þröngt eða vítt grip, mismunandi fótastaða, hallandi eða flatur bekkur og svo framvegis.

Það sem gerir efnistökin einstök er sérstök meiðslaumfjöllun í þeim köflum sem fjalla um vöðva eða líkamshluta sem auðvelt er að tjóna með því að framkvæma einstakar æfingar vitlaust. Kaflar um axla- og bakmeiðsli eru mjög greinargóðir og ítarlega útskýrt hvernig meiðsli koma til og eins hvað gera megi til að draga úr líkum á þeim.

Fjöldi stórglæsilegra skýringarmynda fylgir umfjölluninni og teiknar Delavier þær sjálfur auk þess að skrifa bókina svo manninum er auðsjáanlega ýmislegt til lista lagt. Öll vöðvaheiti eru á latínu sem er skemmtilegt þar sem gaman er að luma á fróðleik um hvar til dæmis flexor digitorum superficialis eða serratus anterior eru niður komnir.
strength tr
Delavier sýnir og útskýrir 115 mismunandi æfingar í bókinni og ég hef endalaust getað sótt mér andagift í hana síðan hún rataði í mínar hendur í vor. Óhætt er að segja að fróðleikurinn hafi haft töluverð áhrif á mínar æfingar og ýmsu hef ég breytt þar til batnaðar eftir að ég fór að fletta upp í Strength Training Anatomy. Þetta er sem sagt dúndurgripur og fæst hjá honum Ægi vini mínum í Vaxtarvörum.

Athugasemdir

athugasemdir