Ég hef tekið þá ákvörðun að hefja karateæfingar á ný og nú hjá Stavanger Karateklubb sem stundar hefðbundið shotokan karate eins og ég þekki það frá Þórshamri, mínu gamla heimili á Íslandi. Þar með læt ég af taekwondo-æfingum hjá Stavanger-deild Nasjonal Taekwondo Norge. Sú ákvörðun hefur átt sér nokkurn aðdraganda en þungamiðjan í henni er að NTN kennir að mínu viti ekki hefðbundna bardagaíþrótt (þá á ég við það sem á norsku kallast tradisjonell kampsport og á ensku traditional martial art) eins og slíkt á að kenna. (MYND: Ein gömul og góð frá Íslandsmeistaramótinu í kata 2007 þar sem við Birkir og Magnús Blöndal mörðum brons nokkrum dögum eftir 1. dan-gráðun okkar Magga. Gott var brennivínið að kvöldi þessa dags.)
Þegar allt að 41 mínúta af 90 mínútna æfingu fer í boltaleiki og aðrar athafnir sem hafa ekkert með viðkomandi íþrótt að gera get ég ekki fallist á að verið sé að iðka eitthvað sem fellur innan ramma hefðbundinna bardagaíþrótta. Þetta er ábyggilega óskaplega skemmtilegt að mati barna og annarra minna þroskaðra manna en sem aðili að hvorugri deildinni fæ ég persónulega lítið út úr þessu annað en sturtuna eftir æfingu og þokkalegar teygjur ef ég nenni að framkvæma þær sjálfur.
Ég bið lesendur að líta ekki á þessi skrif mín sem einhvern áfellisdóm yfir taekwondo sem mér finnst hvort tveggja flott sport og athyglisvert en staðreyndin er sú að hér í Stavanger er verið að bjóða upp á mun meiri metnað í karate. Hvernig veit ég það? Taekwondo-klúbburinn æfir í húsnæði karate-klúbbsins hérna niðri á Banevigsgate svo ég verð reglulega vitni að karate-æfingum þegar ég mæti á taekwondo-æfingar og þar er ekki verið að tvínóna neitt heldur allt sett í botn frá fyrstu mínútu. Eins hafa þeir karate-megin vit á að hafa aldursskiptingu í flokkum þannig að æfingin lítur ekki út eins og blanda af skírnarveislu og leikjanámskeiði hjá ÍTR.
Það verður sem sagt nóg að gera hjá mér við að rifja upp kata og fleira fyrir næsta mánudag því þá mæti ég á mína fyrstu karate-æfingu í Noregi. Helsti munurinn verður samt auðvitað að geta hent gula beltinu úr taekwondo ofan í skúffu og mætt á æfingu með svart belti um sig miðjan. I’ll be back!
Þetta voru helstu fréttir. Næsthelstu eru að ég var á námskeiði í notkun vinnulyftna (n. personløft) í dag hjá Sapio.no á vegum vinnunnar. Þetta eru svona lyftigræjur sem maður lyftir sjálfum sér upp með til þess að framkvæma ýmis verkefni í nokkurri hæð frá jörðu. Við notum slíkt ekki mikið hjá NorSea svo ég skil nú ekki hvers vegna þeir voru að hafa fyrir því að senda mig og Svíann Jonas Knutsson á þetta námskeið en við verðum þá tveir af fjórum innan fyrirtækisins sem höfum próf í notkun á svona græjum.
Hápunktur námskeiðsins, sem stóð frá klukkan 08 til 16 í dag, var ágætt mötuneyti Sapio en þar var okkur drekkt í ufsa ‘cordon bleu’ með tilheyrandi meðlæti og býsna góðu kaffi á eftir. Á flestum námskeiðum hér í landi hef ég fengið vont kaffi og einu sinni sæmilegt kaffi og kex (lyftaranámskeið í ágúst). Aldrei mat svo ég muni. Þetta var því bara ágætt allt saman og skriflegt próf á eftir þokkalega sanngjarnt. Hefðum við ekkert heyrt frá þeim fyrir miðnætti hefðum við náð var okkur tjáð af norskri hógværð. Ég krossa alla útlimi og hef enn ekkert heyrt nú klukkan 23:55.
Verklegi hlutinn eftir hádegið var ekki af sama metnaði. Hann fólst í því að hópurinn horfði á feitan kall frá PON Equipments, sem er vinnuvélaleiga í Sandnes, lyfta sjálfum sér upp í 40 metra hæð með bómulyftu og skila sér svo sömu leið til jarðar. Svo vorum við útskrifuð og þau sem náðu skriflega prófinu fá skírteini í póstinum eftir viku um að viðkomandi geti unnið á svona græju eins og að drekka gin og tónikk. Ég veit satt að segja ekki hvort ég gæti staðið undir því, svei mér.