Jæja, þá er þetta blessaða próf í alþjóðastjórnmálum yfirstaðið og lífið hægt og rólega að detta í skorður aftur. Djöfullegri próflestur hef ég ekki gengið í gegnum ansi lengi, eiginlega bara mjög lengi. Fyrir vikið veit ég núna töluvert um Evrópusambandið, stjórn þess, sögu og virkni sem ég hafði ekki hugmynd um áður enda aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um Evrópusamruna.
Einnig er mér kunnugt um tilvist fræðimanns sem heitir Peter Katzenstein og er prófessor í alþjóðasamskiptum við Cornell-háskóla. Katzenstein þessi er mikill fræðingur í samskiptum smáríkja og stærri ríkja en við Háskóla Íslands er einmitt starfrækt Rannsóknasetur um smáríki. Ekki hafði ég hugmynd um það fyrr en núna í haust. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að maður veit í raun ekki neitt.
Fyrir þá sem vilja kynna sér hvernig Peter Katzenstein heldur nemendum sínum í heljargreipum er bent á þessa kennsluáætlun hans í námskeiði um alþjóðavæðingu. Þetta er ekki ósvipuð aðferðafræði og dr. Baldur Þórhallsson beitir í sinni kennslu við HÍ og reyndar virkar hún ágætlega. Ég hef að minnsta kosti komist upp með slakari vinnubrögð í mörgum öðrum námskeiðum og nú að loknu prófi vaknar maður upp við þann veruleika að maður kann námsefnið. Þetta er byltingarkennt.
Ég tek það fram að öll ummæli mín hér falla dauð og ómerk ef ég fell svo í námskeiðinu. Það verður þó ekki ljóst fyrr en eftir áramót því ég hef tekið upp svonefnda NPCGP-stefnu eða (e. Non Pre-Christmas Grading Procedure) sem gengur út á að ég athuga ekki með neinar einkunnir fyrr en eftir áramót enda koma þær sennilega ekki fyrr hvort eð er.
Nú sit ég mjög afslappaður yfir ritgerð um boðskiptavitringinn Marshall McLuhan sem ég ætla að skila Þorbirni Broddasyni í fyrramálið. Mjög þægileg tilbreyting eftir heljarlesturinn í alþjóðasamvinnunni. Eftir morgunvakt í fyrramálið verð ég sem sagt kominn í fyrsta alvöru helgarfríið mitt síðan í ágústlok, það er að segja helgarfrí án þess að eitthvað skólatengt vofi yfir. Að líkindum verður það þægilegt. Eins er jólarauðvínið mitt tilbúið, síðari fleyting fór fram í gær og tókst með ágætum. Afraksturinn varð 23 lítrar af rauðvíni sem ilmar alla vega mjög vel. Smökkun er á dagskrá yfir kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.