Aftur til fortíðar

matjurtarktGamli sjálfsþurftarbúskapurinn snýr aftur af fullum krafti. Mér hefur verið úthlutað matjurtagarði hérna við Skarhólabraut í Mosfellsbæ en hún liggur meðfram Úlfarsfelli. Í fyrstu leit þetta ekki út fyrir að ætla að skila árangri, allir garðar voru þegar komnir í útleigu þegar ég sendi bæjarskrifstofunum tölvupóst og ég endaði á biðlista. Ekki taldi ég það gefa tilefni til bjartsýni en kraftaverkin gerast enn og á föstudaginn er hringt í mig frá skrifstofum Mosfellsbæjar og mér tjáð að ég hafi orðið fyrir því happi að hreppa einn af nýju görðunum sem útbúnir voru til að anna gríðarlegri eftirspurn.

Ekki þvælist verðið fyrir í kreppunni, 1.500 krónur fyrir 50 fermetra garð allt sumarið. Nú er sem sagt komið að því í lífi mínu að ég taki á ný til við þá iðju sem ég sinnti af kappi í skólagörðum Garðabæjar sumarið 1984, ræktun kartaflna og hvers kyns matjurta annarra. Ég man að þar var ég með radísur og hvítkál auk kartaflnanna og uppskar þetta allt saman af mikilli natni í ágúst, burðaðist með heim og gaf ömmu gömlu alla uppskeruna enda þótti mér radísur og kál bölvað ógeð í þá daga en kartöflurnar voru fínar með glæsilegu hýði og mesta sælgæti.

Nú er sem sagt næst á dagskrá að kaupa útsæði og annað sem til þarf í Garðheimum og halda út í guðsgræna náttúruna til að rækta garðinn sinn. Ekki er örgrannt um að lítinn trúnað hefði ég lagt á það fyrir ekki nema ári að fyrir mér ætti að liggja að demba mér út í ræktun eigin matjurta en kreppur breyta gildunum svo mikið eins og ótal þjóðir hafa fengið að finna um árin. Matjurtarækt virðist enda ætla að verða næsta þjóðaríþrótt Íslendinga og renna garðarnir út sem heitar lummur.

Svona verður maður bara að bjarga sér til að spara krónurnar, matjurtarækt, ýsa keypt af kunningjum sem stunda sjóinn, eigið rúðupiss bruggað með vatni og sápu (lítrinn af þeirri vöru í lausu er kominn í hreint fáránlegt verð á bensínstöðvunum, 250 kr. þegar ég keypti síðast). Við höfum jafnvel hugleitt það í fúlustu alvöru að fá okkur landnámshænur í garðinn og leyfa þeim að reika hér um og kreysta úr sér gómsæt alnáttúruleg egg.

Næst er svo bara að skrá sig í Staðardagskrá 21, gangast undir Kyoto-bókunina og verða fullkomlega sjálfbær. Í raun vantar ekki mikið upp á nema að læra að brugga bensín sem er kannski þrautin þyngri. En sumarsportið 2009 er alla vega komið, matjurtarækt. Ég nenni bara ekki að læra þessi vísindi…og þó, jú jú.

Athugasemdir

athugasemdir