Af mögum

Vorið 2005, 2. apríl nánar tiltekið, gerðust mikil undur og stórmerki á árshátíð Karatefélagsins Þórshamars sem það árið var haldin í sal Lögreglufélags Reykjavíkur við Brautarholt. Þrír ungir menn stigu þá á svið og sýndu þaulæft magadansatriði eftir að hafa setið undir því árum saman að nokkrir kvenkyns félagar Þórshamars ættu eins konar einkarétt á að sýna slíkan dans á uppákomum félagsins enda gekk atriðið undir vinnuheitinu „Við getum þetta líka!“

(MYNDSKEIÐ: Nemendasýningin í Tjarnarbíói, það var Stöð 2 sem annaðist upptöku.) Auk mín voru þetta þeir félagar Árni Þór Jónsson og Daníel Pétur Axelsson en við höfðum rætt það annað veifið um veturinn að varla gæti það gengið til eilífðar að kvenpeningurinn einn stundaði magadans án allrar samkeppni við andkyninga sína innan félagsins. Það varð því úr að við leituðum með hugarvíl okkar til Kristínu R. Berman (a.k.a. „hún-ber-mann!“), magadanskennara og karatekempu, sem tók okkur þegar opnum örmum og hafði á augabragði tekist á hendur það metnaðarfulla og óöfundsverða verkefni að þjálfa þrenninguna í magadansi.

(MYNDSKEIÐ: Spjallað og dansað í Íslandi í dag, Haukur og Svanhildur aldeilis ungleg þarna!/Stöð 2) Hófst nú einn djöfullegasti marsmánuður sem elstu menn þess tíma mundu og hlífði Berman sér (og okkur) hvergi við kennsluna sem fram fór ýmist í sal Þórshamars eða Magadanshúsi Josy(ar) Zareen sem var óopinber verndari verkefnisins. Á síðarnefnda staðnum æfðum við í hópi annarra nemenda þeirra Berman sem, líkt og gefur að skilja, voru allir af öndverðu kyni við okkur og var til dæmis eingöngu sturtuklefi ætlaður konum í húsinu en okkur nýnemunum veitti almennt ekki af sturtu eftir miskunnarlausar æfingar þar sem svitinn draup af okkur líkt og smjör af stráum.

(MYNDSKEIÐ: Rætt við dansarana í Íslandi í dag með glefsum úr Tjarnarbíói./Stöð 2) Framþróun okkar félaga á þessum vettvangi næstu vikurnar var örari en við sjálfir höfðum þorað að vona og Kristína sjálf lét þau orð falla að við værum hennar metnaðarfyllstu nemendur frá upphafi vega. Slík var ósérhlífni Kristínu við þetta erfiða en einstaka verkefni að hún lagðist þegar í búningahönnun og var sú múndering sem þrenningin tróð upp í við frumsýninguna í bland hennar framleiðsla og lánsfatnaður frá Magadanshúsinu.

Varla var hægt að klúðra þessari uppákomu eftir þá þrotlausu þjálfun sem að baki var svo árshátíðaratriðið gekk vonum framar og mikill var léttir okkar þegar við gátum lagt þessa óþreyjukenndu spennu að baki okkur og mér fannst ég hreinlega kominn í einhvers konar snemmbúið sumarfrí að kvöldi 2. apríl þar sem ég hafði einnig átt sæti í árshátíðarnefnd þetta vor og haft í nokkur horn að líta þar. (MYND: Umfjöllun DV, september 2005./DV)Magadans-DV

Fríið varð þó skammvinnt því nokkrum vikum eftir jómfrúaruppfærsluna var okkur boðið að koma fram á nemendasýningu Magadanshússins í Tjarnarbíói og dansa þar innan um rjómann af nemendum skólans auk kennara hans. Hróður okkar tók þar með að berast allvíða og dönsuðum við á tröppum veitingahússins Sólons á Menningarnótt í Reykjavík við mikinn fögnuð viðstaddra auk þess að vera með sérstakt sýningaratriði á Íslandsmeistaramótinu í magadansi í september sem leiddi til töluverðrar athygli fjölmiðla en þar komum við í fyrsta sinn fram í nýju „töffarabúningunum“, hlýrabolum við sólgleraugu en reyndar í pilsi áfram svo vel má deila um hvaða skilaboð þar voru send út til áhorfenda. Líklega engin…

Við sögðum að lokum stopp og afþökkuðum pent þegar beiðni barst um dans á árshátíð Sniglanna síðar um haustið, ákváðum að hætta á toppnum eins og sagt er. Og þar erum við auðvitað enn þegar þetta er ritað.

 

 

Athugasemdir

athugasemdir