Af litskrúðugum pizzugerðarmeisturum

pizzaÉg átti von á flestu öðru en að ég ætti eftir að smakka bestu pizzur lífs míns í Portúgal af öllum stöðum en sú varð þó raunin í nýafstöðnu og margumræddu sumarfríi ársins. Veitingastaðurinn Pizzaria O Terraço við Rua João de Deus, skammt frá aðaltorginu í gamla bænum í Albufeira, lætur ekki mikið yfir sér, hefðbundið húsnæði með yfirtjölduðum útipalli við þrönga hliðargötu og ekkert frábrugðinn hundrað öðrum veitingahúsum í þessari perlu Algarve-héraðsins. (MYND: Kveðjustundin síðasta daginn okkar. Stutt í glitrandi tár.)

Sá þáttur sem þessi staður, og þá ekki síður eigandi hans og helsti starfsmaður, Thierry Castanho, átti eftir að eiga í upplifun okkar á þessari skemmtilegu dvöl var okkur engan veginn ljós þegar við röltum fram hjá um hádegisbil einn daginn og vorum einmitt í matarhugleiðingum. Þar sem þolinmæði mín til mikilla gönguferða í steikjandi sól var takmörkuð, vitandi af hræódýrum veislumat og áfengi nánast við hvert fótmál, kvað ég eftirfarandi úrskurð upp án tafar: “Jæja, helvíti, látum verða af því að prófa portúgalskar pizzur með svalandi gin og tónik og sangria á kantinum!” Þessu var ekki mótmælt.pizzaii

Þarna hittum við Thierry fyrst en sá mæti einstaklingur átti eftir að verða nær órjúfanlegur þáttur í næringar- og næturlífi okkar næstu vikuna. Allar pizzurnar sem við prófuðum af matseðlinum voru óaðfinnanlegar. Eldbakaðar með þunnum botni, áleggið ferskt og bragðmikið (sérstaklega salami á heimsmælikvarða sem ég var farinn að heimta tvöfalt af á allar pizzur undir lokin) og vænn skammtur af rótsterkri piri-piri-olíu yfir öll herlegheitin var sannkölluð rúsína í þessum pylsuenda lífsins. Hver pizza var sem endurfæðing bragðlaukanna og er ekki örgrannt um að aðeins Eldsmiðjan á Bragagötu hafi í mínu lífi verið á svipuðum slóðum í gerð og framreiðslu flatbakna. (MYND: Ómótstæðilegar pizzur hjá kallinum.)

Þá var hvítvíns-sangrian sem Thierry galdraði fram, einn og hálfur lítri á tíu evrur, eins svalandi og rammáfeng og nokkur ódáinsdrykkur getur orðið í 30 gráða hita á syðstu endimörkum Evrópu. Þarna komum við oft.pizzaiii (Skákeinvígið á Casa do Benfica, bjór, gin og tónik tryggja einbeitinguna.)

Þessi aðsópsmikli matráður lét sér ekki nægja að bera í okkur mat og vín dægrin löng heldur skirrðist hann ekki við að setjast að drykkju með okkur að kvöldi dags á helsta athvarfi starfsfólks veitingastaðanna í gamla bænum, knæpunni Casa do Benfica, þar sem við urðum daglegir gestir áður en yfir lauk og til að kóróna allt saman fór þar meðal annars fram spennuþrungið skákeinvígi milli þeirra Rósu í hverju Thierry fagnaði að lokum sigri eftir rimmu sem gaf hólmgöngu þeirra Fischers og Spassky í Höllinni 1972 ekki millimetra eftir.pizzaiv (MYND: Það er alveg óhætt að skella sér á eina kringlótta og sangriakönnu eigi lesendur leið hjá þessu húsi í næsta fríi.)

Þau eru bæði mörg og alþjóðleg, tengslin sem helför þessi um Portúgal og breska heimsveldið gat af sér, en að öllum öðrum ólöstuðum hugsa ég að kynni okkar af Thierry Castanho rísi þar eins og hamraborg upp úr flatneskju íslenskrar ljóða- og sagnagerðar, svo vitnað sé í frægan ritdóm frá 1927. Fyrsta stopp næstu heimsóknar verður að minnsta kosti klárlega hjá honum í sangria og pizzu en ég get ljóstrað því upp hér að ég er að hugsa um að verða fertugur í Albufeira á vori komanda (það verður samt partý í Stavanger einhvern laugardag í apríl ef einhver heldur að ég muni bregðast skyldum mínum á þeim vettvangi – nánar auglýst í janúar!).

Athugasemdir

athugasemdir