Af englum vítis

englarFátt hefur verið meira áberandi í fjölmiðlum í dag og í gær en uppfærsla vélhjólaklúbbsins Fáfnis MC í svokallaðan Hells Angels Prospect-klúbb. Mikið er býsnast yfir þessu og virðist sem embættismenn og fleiri séu almennt þeirrar skoðunar að við það að taka upp þetta nýja heiti umbreytist félagar Fáfnis í mannýga djöfla og forynjur.

Ég sé nú ekki alveg rökin á bak við það. Þetta er væntanlega sama fólkið áfram þótt það verði komið með nýjar skreytingar á bök leðurjakka sinna. Þá er hæpið að bera saman lætin í kringum Vítisenglana í Danmörku og Noregi annars vegar og hins vegar það sem menn eiga von á hér heima á Íslandi. Hér eru erkifjendur Vítisengla, Bandidos, til dæmis ekki með starfsemi og ekki er mér kunnugt um að neinn klúbbur hér sé að bera víurnar í þá. Þá á Black Cobras-klúbburinn sér heldur ekki umboðsmenn á Íslandi.

Ég spyr mig því, svona miðað við íslenskt umhverfi og aðstæður, hvort menn telji það heimsendi að Fáfnir heiti framvegis Hells Angels en ekki Fáfnir. Svarta sauði má að líkindum finna í flestum félaga- og áhugamannasamtökum og ég er kannski svona óttalega bláeygur en ég trúi því að flestir félagar Vítisengla hafi enn sama markmið og þeir sem stofnuðu fyrsta klúbbinn í San Bernardino í Kaliforníu 17. mars 1948 – að aka um á vélhjólum og sinna því áhugamáli sínu. Er þetta sport eitthvað verra en golf?

Mér finnst nokkuð koma til þess sem haft er eftir talsmönnum Vítisengla, að fólk muni allt það neikvæða í kringum þá en hið jákvæða sé jafnóðum gleymt (When we do right nobody remembers when we do wrong nobody forgets). Hópur innan Vítisengla kallar sig the filthy few, óþokkana örfáu. Sumir segja að á hnakka þeirra (eða annars staðar) megi finna húðflúrið 1% sem vísi til þess hlutfalls félaga innan samtakanna sem hafa orðið manns bani. Ótal sögusagnir eru reyndar í kringum þetta atriði og mismunandi útgáfur af því hvað prósentið eina táknar. Eitt er víst að það stendur ekki fyrir stýrivexti Seðlabanka Íslands.

Með öðrum orðum. Stórir hópar hafa mismunandi fólk að geyma. Að banna starfsemi Vítisengla hér með lagabókstaf áður en nokkur reynsla er komin á hana er í besta falli skammsýni. Við höfum hér almenn hegningarlög frá árinu 1940 og ákvæði þeirra ná eftir því sem ég best veit yfir landsmenn alla. Það er slæmt ef þjóð treystir refsilögum sínum ekki betur en svo að hún vilji banna starfsemi félagasamtaka með lögum. Slík hugmyndafræði er farin að minna óþægilega mikið á Alþýðulýðveldið Kína og stjórnarhætti þar.

Athugasemdir

athugasemdir