OnePoll lagðist í fjögurra mánaða rannsóknarvinnu við að safna saman starfstitlum frá fólki á vinnumarkaði, greina merkingu þeirra og kanna hvert starfssvið viðkomandi væri. Það var þá sem þeir uppgötvuðu meðal annars að fjölmiðladreifingarfulltrúi ber út blöð og fæðuhreinlætistæknir annast uppvaskið á næsta veitingahúsi.
Talsmaður OnePoll segir að uppfinningasemin sé að keyra úr hófi fram þessa dagana. Sumir titlanna hafi verið á sveimi í nokkur ár en nýir streymi nú fram sem aldrei fyrr og spyrja megi hvort viðkomandi starfsmaður sé eitthvað ánægðari í vinnunni. Er þjóðvegaumhverfisfræðingur sáttari en götusópari þótt þar fari einn og sami maðurinn? Verðugt umhugsunarefni yfir páskana.