Ættin eldist

katlaHún Katla Ósk, nýjasta nána skyldmenni mitt og dóttir Kára bróður, er eins árs í dag. Ég hef eingöngu hitt hana tvisvar vegna búsetu minnar í Noregi, um síðustu jól og svo núna í sumarfríinu þegar við vorum tvær vikur á Íslandi. Þau halda þrefalda afmælisveislu í Garðabænum í dag þar sem öll fjölskyldan á afmæli á sama tíu daga tímabilinu. (MYND: Í fríi á Íslandi í júní. Ég byrjaði strax að kenna Kötlu að steyta hornin og þarna er hún að ná þessu þrátt fyrir ungan aldur, komin með einn og hálfan fingur upp.)

Kári sagði mér í dag að það væri broslegt að gestir úr okkar fjölskyldu væru þrír en 40 á vegum Þórhildar, mágkonu minnar, og það væru bara þeir allra nánustu. Ég benti honum á hvað þetta væri nú þægilegt okkar megin í þessu fámenni. Ég held að ég hafi farið í fjórar fermingarveislur um ævina að meðtöldum veislum okkar bræðranna og ég þarf aldrei að fara í jólaboð sem eru mest þrúgandi samkomur er um getur.

Hvað sem ættgöfgi og -stærð líður óska ég Kötlu frænku til hamingju með fyrsta árið. Hún er þá komin yfir erfiðasta hjallann og sennilega bráðum farin að ganga. Bæði skríðum við þó um nú og veldur æska henni en ölvun mér. Sjá þarna glöggir menn vísun í kvæði Bersa í Kormáks sögu Ögmundarsonar:

Liggjum báðir
í bekk saman,
Halldór og ek,
hvergi færir,
höfum engi þrek.
Veldr æska þér
en elli mér,
þess batnar þér
en þeygi mér.

Við Rósa sendum bestu kveðjur frá Stavanger. Líklegast mætum við Kötlu næst í örstuttri jólaheimsókn sem ráðgerð er dagana 22. – 26. desember. Maður nær ekki einu sinni að melta kalkúninn áður en við komum aftur hingað heim og svo taka við okkar fyrstu áramót í Noregi. Talið var réttast að stíga þessi skref í tvennu lagi og taka ekki frumraun á allt hátíðatímabilið í Noregi eitt og sama árið. Maður þarf alltaf sínar hefðir.

Athugasemdir

athugasemdir