Æska mín – in memoriam

sumar92Ég er 20 ára stúdent í dag. Auk mín heilsar þessum degi hópur rúmlega 50 einstaklinga sem hinn sólríka laugardag 22. maí 1993 hlýddu á söng, ræðuhöld, grát og gnístran tanna í Kirkjuhvoli (nú Vídalínskirkju) í Garðabæ áður en Þorsteinn Þorsteinsson, þess tíma skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, bað okkur vinsamlegast að setja upp húfurnar, koma okkur út, reyna nú að gera eitthvað af viti og umfram allt koma ekki aftur. (MYND: Kemur í ljós að pabbi er með allar myndirnar frá útskriftinni (ég sagði þér það, pabbi!) en svona litum við samstúdent Andri Ægisson út sumarið fyrir stúdentsveturinn. Vorum í jakkafötum við útskriftina…annars eins.)

Með þessu lauk fjórum býsna skemmtilegum framhaldsskólaárum sem ég skipti jafnt milli Menntaskólans í Reykjavík og Fjölbrautar í Garðabæ og naut þar með þeirrar gleði að kynnast öndvegisfólki á báðum stöðum sem margt hvert veitir enn birtu inn í líf mitt og hjarta…stundum brjóstbirtu jafnvel.

Ég held að engum úr mínum og fleiri árgöngum garðbæskra barna-, gagnfræða- og framhaldsskóla dyljist sú staðreynd að nægur er lagerinn af hroðalegum sögum um vanhugsuð, illa ígrunduð og á köflum brjálæðisleg uppátæki og bernskubrek efstu tveggja áratuga nýliðinnar aldar. Ekki skal ég draga fjöður yfir það í þessum línum og jafnvel er svo, að freistandi sé að álykta að tíð kennaraverkföll níunda áratugarins hafi verið sprottin úr Garðabæ. Það voru þau þó ekki.

Saga Fjölbrautaskólans í Garðabæ er kannski ekki beint blóði drifin en engu að síður komst það í fréttir Stöðvar 2 í september 1991 þegar “kynþáttastefna varpaði skugga á” busavígslu skólans en eldri nemar klæddu sig þá upp í götótt lök og hófu vígsluna með því að brenna kross á flöt skólans. Er mér enn í fersku minni þegar Sigmundur Ernir, kornungur fréttamaður Stöðvar 2, birtist á skjánum, brúnvölur mjög, og las inngang fréttarinnar með alvöruþrunginni raust. Það var nú skemmtilegur dagur samt sem áður.

Mig langar þó að rifja hér upp öllu ískyggilegri strákapör er leiddu á vordögum 1992 til ítarlegrar lögreglurannsóknar sem þó var blásin af eftir hálftíma. Þetta var 1. apríl þá um vorið og við félagarnir höfðum dagana áður verið að ræða hvort ekki væri kominn tími til að framkvæma nothæft aprílgabb í skólanum en fátæklegt hafði verið á þeim vettvangi árin á undan. Eftir fundahöld komst nefndin að því að hentugast væri að setja á svið fagmannlegt innbrot og stórþjófnað í skólanum og trufla þar með kennslu svona eins og fyrsta tímann þennan bjarta miðvikudagsmorgun, nemendum og kennurum til skemmtunar og yndisauka.

Svo hentuglega vildi til að hlutaðeigandi áttu allir sæti í stjórnum ýmsum og nefndum innan nemendafélags skólans og fóru því allir sem einn með lyklavöld að skólahúsunum en kennt var í tveimur húsum við Lyngás á þessum tíma og nýtt glæsilegt skólahús enn þá nokkur ár undan.

Hópurinn mætti því til leiks seint að kvöldi 31. mars og tók til við að fjarlægja allan helsta tækjakost skólans, sjónvörp, myndbandstæki og myndvarpa, úr skólastofum og fela djúpt í myrkviðum ræstingaherbergja og annarra afkima. Til að kóróna meistaraverkið var einnig sælgæti og ýmis matvæli fjarlægt úr sjoppuholu útskriftarnema, sem hvort sem er var svívirða við allar heilbrigðisreglugerðir og -tilskipanir landsins, og tiltækt lausafé búllunnar sett í poka og falið inni í ísskáp.

Smiðshöggið á þennan listilega glæpavettvang rak svo verðandi nýstúdent þessa vors, virðulegur sjúkraþjálfari í dag, sem mætti ljósbroti á undan henni Sigríði, okkar ástkæra húsverði, að morgni 1. apríl og opnaði hliðarhurð á matsal skólans sem svo blakti þar í golunni.

Ég missti af byrjuninni á öllu saman þar sem ég sat fyrsta tíma dagsins í hinu húsinu en alvara málsins blasti við þegar ég kom höktandi yfir í fyrstu frímínútum. Rannsóknarlögregla ríkisins heitin var þá við fingrafararannsóknir í matsalnum og uppi á kennarastofu fór fram neyðarfundur kennara og lögreglu en allri kennslu hafði þegar verið aflýst í ljósi atburða. Þá sáum við félagarnir okkur knúna til að benda á það sem okkur fannst svo sem alveg nógu augljóst…að það væri 1. apríl. Gengum við inn á kennarastofu og tilkynntum þetta. Sú þögn sem þá skall á verður sennilega seint leikin eftir og hafði klárlega aldrei heyrst í þessari stofnun áður. Svo hóf skólameistari upp raust sína.

Þau málaferli sem hófust í kjölfarið voru býsna langvinn. Við sluppum við ákæru fyrir að blekkja og teyma lögreglu ríkisins á asnaeyrunum og skólanefnd Garðabæjar taldi með naumindum eftir stífar fundasetur ekki ástæðu til að vísa okkur úr skólanum. Refsingin varð þrælkunarvinna við að sópa bílastæði og lóð skólans fyrir Siggu húsvörð sem var fyrsta, og sennilega verst brugðna, fórnarlamb þessa fyrsta dags aprílmánaðar 1992. Hún fyrirgaf okkur nú samt, þessi elska.

Ég óska samstúdentum mínum innilega til hamingju á 20 ára afmælinu og hlakka mikið til að hitta velflesta úr þeim hópi á 25 ára gagnfræðaendurfundum á næsta ári. Lifið heil.

Athugasemdir

athugasemdir