Ærinn hafa þeir klækiskap

AfmaeliLiðin helgi var ekkert minna en stórkostleg. YR bakkaði reyndar aðeins með veðurspána sem fjallað var um í síðasta pistli en nýja spáin, sem gerði ráð fyrir hálfskýjuðu, rættist hins vegar ekki og Stavanger og nágrenni var hrein steikarpanna alla helgina. Ég er skaðbrunninn út um allt og lít eiginlega út eins og illa steikt beikon eftir þetta ævintýri.

Ekki var ég alveg nógu iðinn við kolann að taka myndir í afmælisveislunni sjálfri á laugardagskvöldið og lítið hægt að afsaka sig núna svo sem þegar maður gengur um með myndavél sem stundum gegnir hlutverki síma. Lítill hópur fólks lagði það á sig að koma alla leið ofan af Íslandi sem telst einkar virðingarvert. Þetta voru Guðmundur Haukur Gunnarsson og Friðbjörn Garðarsson en sem leynigestir mættu Magnús Ófeigur Gunnarsson og Eva Lind og gekk plottið gjörsamlega upp hjá þeim, mig grunaði ekkert fyrr en þau birtust. Einnig kom frá Íslandi Björn Skorri Ingólfsson en ég tel það samt ekki alveg með þar sem hann er búsettur í Ósló. (MYND: Gengið um miðbæ Stavanger áleiðis til N.B. Sørensen Bar, veður framar öllum mínum vonum.)AfmaeliII

Að öllum öðrum ólöstuðum var þrælmagnað að endurnýja kynni við Friðbjörn Garðarsson hæstaréttarlögmann sem ég hafði ekki séð í áraraðir. Vorum við samtímamenn hvort tveggja í Menntaskólanum í Reykjavík og lagadeildinni í HÍ þann tíma sem ég var þar. Líklega þekkjum við Friðbjörn sameiginlega vel á annað hundrað manns og býsna margt var að ræða og rifja upp. Hvernig verður þetta þegar maður verður orðinn sextugur?! Las Friðbjörn meðal annars upphátt úr Njálu meðan við sátum í sólbaði á svölunum hjá mér og varð af hin besta skemmtan.

Ekki er annað hægt en að ljúka lofsorði á frammistöðu N.B. Sørensen Bar þar sem vertinn Odd Rasmussen og hans fólk áttu sinn þátt í að gera kvöldið ógleymanlegt. Ég drekk svo sem ekki bjór og veit því ekkert hvernig hann var en franska hvítvínið Domaine de Pellehaut sem Odd mælti með fyrir þetta tilefni var stórkostlega gott og tapassnitturnar runnu ljúft og hratt ofan í gesti. Ekki skemmdi fyrir að njóta glampandi sólar og rúmlega 20 gráðu hita í miðbæ Stavanger sem var iðandi af ölþyrstu mannlífi. (MYND: Friðbjörn gluggar í gamlan Þjóðvilja á svölunum í Sandnes í gær.)AfmaeliIII

Ekkert lát er á blíðunni nú í dag og satt að segja bjóða svona dagar bara upp á að maður fari beint heim úr vinnunni og dembi í sig ísköldu hvítvíni úti í garði. Nýja áfengisprógrammið mitt, sem hófst um leið og fimmtugsaldurinn, kemur hins vegar í veg fyrir það og gengur í stuttu máli út á notkun áfengis eitt skipti í mánuði nema auðvitað í sumarfríum og á ferðalögum erlendis. Öðruvísi get ég því miður ekki haldið mér í þokkalegu formi orðið, þetta er allt að verða svo erfitt eitthvað með árunum. Áskoranir eru þó bara skemmtilegar.

Kærar þakkir til allra sem lögðu það á sig að mæta á laugardaginn og taka þátt í gleðinni með mér. Þeir sem voru duglegri en ég að taka myndir mega gjarnan senda mér þær eða skella þeim á Facebook teljist þær ekki raska almannafriði eða fara í berhögg við siðferðiskennd venjulegs fólks. Þetta var í stuttu máli mjög ánægjulegt, ég lofa hörðu fimmtugsafmæli eftir tíu ár.

Athugasemdir

athugasemdir