Að stinga höfðinu í…

hausigornMyndin hér hægra megin er gamalt metsöluverk á lýðnetinu en ég verð að játa að hún minnir mig töluvert á nýkjörna ríkisstjórn. Sumir eru sem sagt með höfuðið þar sem sólin skín seint og illa. Þegar atlisteinn.is lagði í haf var það eitt yfirlýstra markmiða að flækja síðuna ekki í pólitík. Mér leiðist pólitík svona tiltölulega. Það eru miklu betri menn en ég að fjalla um pólitík og af mun meira viti. Ég nefni bara Egil Helgason og Lilló frænda minn.

Einhvern veginn rennur mér þó blóðið til tungunnar/lyklaborðsins eftir að hafa horft á fréttir Ríkissjónvarpsins í kvöld og heyrt hina nýkjörnu stjórnarherra lýsa því yfir blákalt að almenningur hreinlega þekki bara ekki alla þá frábæru valkosti sem ríkisstjórnin hefur af örlæti sínu veitt skuldsettum og nánast gjaldþrota pupulnum. ‘Það er áhyggjuefni ef þetta hefur ekki komist til skila,’ sagði forsætisráðherra grafalvarleg á blaðamannafundi í þjóðmenningarhúsinu og benti á að 10 – 20 prósenta lækkun á greiðslubyrði, sem hjá sumum er um og yfir hálf milljón á mánuði, hlyti nú bara að vera hið falda tromp í erminni.

Því miður er hálf þjóðin þá í ermalausum bol ef tíu prósentin eiga að gera eitthvað fyrir einhvern. Frystingin mikla á lánum, sem átti sér enga hliðstæðu að eiga nema kannski frostaveturinn mikla 1918, var ekki meiri en svo að neitað var um hana hjá sumum lánastofnunum ef viðkomandi fasteign var í útleigu. Það stóð þó ekki einu sinni í smáa letrinu vegna þess að það er ekkert smátt letur. Hjá nýkjörinni ríkisstjórn er ekki einu sinni neitt letur, punktur.

Á meðan ráðherrar guma af öllum þeim frábæru úrræðum sem bjarga horsælum hérvistarslóðum frá gjaldþroti segir RÚV fréttir af og birtir viðtal við einstæða fjögurra barna móður (sami hlekkur og ofar) með hvítan chiauhua-hund sem er að drukkna í nauðungarsölubeiðnum (konan, ekki hundurinn) og fær engra úrræða neytt af því að hún starfar sem dagmamma og telst þar með atvinnurekandi. Hún hlýtur að jafnast á við lítið álver í augum stjórnarinnar okkar sem sér ekkert nema lausnir og ljúfa daga.

Könnun Reykjavíkur síðdegis á Vísi í gær um það hvernig fólk telur ríkisstjórnina standa sig segir nefndri stjórn kannski eitthvað þegar 68 prósent segja að hún standi sig illa. Það er kaldhæðnislegt að talan 68 minnir óneitanlega á 68-kynslóðina svokölluðu sem margir vilja tengja við jafnrétti og önnur fögur hugtök.

Finnst einhverjum sem ummæli ríkisstjórnarinnar síðustu daga séu neyðarkall um að þjóðin hætti ekki að borga bönkunum? Örugglega ekki. Leyfum forsætisráðherra að eiga lokaorðin í þessum pistli (fréttir RÚV í kvöld): ‘Við erum auðvitað á vaktinni gagnvart því að það séu öflug úrræði til staðar til að hjálpa heimilunum.’

Athugasemdir

athugasemdir