Á nýársdag skall á brakandi þurrkur í lífi mínu í samræmi við þá hefð mína síðan árið 2004 að snerta ekki áfenga drykki mánuðina janúar og febrúar. Reglan er sú að frá því að víman rennur af mér eftir áramótagleðskapinn vætist tunga mín ekki göróttum drykk fyrr en 1. mars. Þetta er þægilegur tími og að mörgu leyti kærkomin afslöppun eftir brennivínsleginn desembermánuð – desember 2009 var þar engin undantekning þótt hann einkenndist að einhverju leyti af próflestri og ritgerðaskrifum.
Áður fyrr var það skilyrði að fyrsti sopinn eftir þurrk væri tvöfaldur Captain Morgan í kók með minnst þremur ísmolum. Þetta breyttist árið 2006 þegar ég hætti að drekka sykraða gosdrykki (mesta gæfuspor ævi minnar) svo frá og með þurrklokum 2007 mátti vera um hvaða áfengi sem er að ræða. Hefur rauðvín gjarnan verið haft um hönd síðan eins og sjá má á þessu myndskeiði sem sýnir fyrsta sopann árið 2009.
Þurrkurinn er mannbætandi tímabil sem einkennist af hreinsun, yfirvegun og núna í ár ritun MA-ritgerðar sem er ný stærð í þessu öllu saman. Þar sem ég bý svo vel að þurfa ekki lengur að vakna í vinnu klukkan fimm á morgnana sef ég í rólegheitum til tæplega átta, fæ mér kaffi og hafragraut og dríf mig niður í World Class Spöng þar sem hressandi morgunæfing tekur af öll tvímæli um að ég sé vaknaður.
Nú er sem sagt tími aðgerða og ferkantaðs skipulags, framkvæmda og hækkandi sólar. Þar sem ég fer yfirleitt ekki á þorrablót til að leggja mér til munns súrsaðan óbjóð gerðan úr líkamspörtum saklausra málleysingja eru janúar og febrúar tilvaldir mánuðir fyrir mig til að hanga á snúru og míga ryki. Svo skellur mars á með árshátíðum og afmælinu mínu og eftir það sigla vor og sumar hraðan byr í lofti með ótal sólbökuðum glösum af gini og tóniki og kældu hvítvíni. Sú orrusta verður reyndar háð í Noregi að þessu sinni og væntanlega framvegis. Ekki er það verra.
Tímasetning þurrks er annars sérstaklega heppileg í ár þar sem við hyggjumst ekki eiga í frekari viðskiptum við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í ljósi síðustu verðhækkana. Hins vegar mun ég setja í gang tvær lagnir af fersku hvítvíni úr viðjum Ámunnar um næstu mánaðamót og næra sálu mína á þeim miði er dagur rís á ný. Sæl verður sú stund.