Lokið er þriggja mánaða göngu um dimman en lærdómsríkan dal, þurrkatíð 2013. Þetta eru töluverð tímamót í ár, hvorki meira né minna en tíundi þurrkurinn frá upphafi þurrka árið 2004. Eins og alltaf var tímabilið í ár hreinsandi og á flestan hátt mjög andlega gefandi. Það hefði að minnsta kosti verið býsna erfitt að sitja 18 klukkustundir af fyrirlestrum í borfræðum aðra hverja helgi frá janúar og fram á vor hefði Bakkus gamli slæðst með í för þær helgar.
Hefðbundið myndband af fyrsta sopanum má nálgast hér eða með því að smella á skjámyndina neðst í textanum. Þetta er frumraun mín við að fella myndband af YouTube beint inn (e. embed) í pistil og ég veit ekkert hvernig það fer. (Það fór ekki vel en eins og venjulega bjargaði Ríkharður Brynjólfsson hjá Tactica mér frá því að verða að athlægi á gervöllu lýðnetinu.)
Dagurinn er merkilegur fyrir fleiri sakir en með honum hefst lokaniðurtalning að fertugsafmælinu mínu. Í dag á ég sem sagt eitt ár í þau tímamót og eins gott að nota það vel. Eins er þetta fyrsti afmælisdagurinn minn síðan 2002 sem ber upp á laugardag og það finnst mér yndislegt. Ég fæddist nefnilega á laugardegi.
Jæja, nú ætla ég að fara að sinna uppsöfnuðum þorsta. Ég óska lesendum mínum og Íslendingum öllum nær og fjær gleðilegra páska og þakka heilshugar fyrir þær rúmlega 100 afmæliskveðjur sem streymt hafa til mín síðan í gærkvöldi. Að öllum öðrum ólöstuðum var sérstaklega ánægjulegt að heyra í Guðnýju Jónsdóttur, móður Páls Winkel vinar míns, í síma núna rétt í þessu. Gömul kynni gleymast ei eins og þar stendur.