Mogginn greinir frá því í dag að Kínverjar séu búnir að loka aðgangi að YouTube. Fyrir utan að spyrja sig til hvers þeir séu að standa í því hlýtur maður að líta á þessa aðgerð sem einhvers konar brjálæðislega margfeldisútgáfu á því þegar Orkuveita Reykjavíkur lokaði fyrir Facebook. Af tvennu asnalegu finnst mér bann OR töluvert vitrænna enda Facebook að mínu viti fyrirbæri hannað fyrir félagshefta internet newbies and download dummies.
Ég fer ekki í neinar grafgötur með álit mitt á Facebook í greininni ‘Ertu ekki á Facebook???’ neðar hér í Tuðdálkinum og ég verð að játa að ég skil Orkuveituna. Heimili mitt nýtur greinilega enn rafstraums þegar þetta er skrifað svo þeir hljóta að skilja mig líka. Að minnsta kosti að einhverju leyti.
Ég veit hins vegar ekki alveg hvernig ber að túlka hin ofsafengnu viðbrögð Hu Jintao og félaga í hinu geðþekka kínversla alþýðulýðveldi að loka fyrir YouTube þar á bæ. Væri ég hinn kínverski kommúnistaflokkur eða aðalritari hans hefði ég nú sennilega fyrr bannað Facebook fyrst enda hafa Kínverjar allt annað að gera en liggja á undarlegum samskiptavefjum. Þeir eru nýbúnir að lýsa því yfir að síðan í janúar hafi þrjár milljónir farandverkamanna í Kína misst vinnuna svo tíma þessa fólks hlýtur að vera betur varið en í fésbókarsveim.
YouTube er hins vegar mun þægilegra fyrirbæri og síður fallið til félagslegs glundroða. Ég féll til dæmis alveg fyrir því þegar ég uppgötvaði þennan æskusmell á túbunni og grét fögrum tárum heilan dag yfir glasi af gin & tónik við að hlusta og rifja upp ljúfsárar æskuminningar.
Orkuveitan er því á réttri leið en ég veit ekki með Kína og já…bankastjórinn frá Zimbabwe mætti aldrei í dag. Ég sat í tvo tíma og þambaði kaffi latte!