Að kirkja sig

kirkens nodhjelpÉg er seinþreyttur til vandræða þegar kemur að því að láta gott af mér leiða í samfélagi okkar mannfólksins en nýjasta skrautfjöðrin í þann hatt er samningur minn við hjálparstofnun norsku kirkjunnar, Kirkens Nødhjelp eins og hún heitir, um fast 200 króna framlag á mánuði til styrktar bágstöddum í Afríku og víðar. Ég tek fram að um norskar krónur er að ræða sé einhver í vafa, ekki færi ég að móðga trúarstofnanir með 200 íslenskum krónum eins og staðan er. (MYND: Kirkens Nødhjelp kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að fjáröflun, þetta er graníthart lið. Frá vorsöfnunarátakinu 2010 sem gekk undir slagorðinu Sjáumst í helvíti.)

Út á svona lagað fær maður skattaafslátt hérna í Noregi og þarf ekki að vera fyrirtæki eða stofnun til þess eins og því er hagað í íslenskum skattalögum. Á næsta ári fæ ég sem sagt einhverjar krónur til baka af greiddum sköttum yfirstandandi árs vegna þess að ég tók þátt í að fjármagna kaup á brunni eða geit handa einhverju fólki í Malaví eða Mósambík sem ég þekki ekki neitt. Afslátturinn var nú reyndar ekki forsenda þessa gernings hjá mér en hann er engu að síður sniðugur og hvetjandi.

Það eina sem var ekki hvetjandi í þessu máli var persónuverndarvaðallinn sem Kirkens Nødhjelp þurfti vegna yfirdrifinna norskra formlegheita að kynna mér í tengslum við að fá að geyma kennitöluna mína í gögnum sínum til þess svo að geta síðar sent skattayfirvöldum upplýsingar um framlag mitt. Var þetta gert í löngum og formlegum texta með gíróseðlinum og að lokum tekið fram að með því að haka við reit á blaðinu gæti ég bannað stofnuninni að geyma kennitöluna…en þá fengi ég heldur engan afslátt.

Þessi nýi styrkur bætist við tvö fósturbörn sem við hjónin styrkjum gegnum ABC barnahjálp á Íslandi, ég stend straum af mat og skólagöngu stúlku í Pakistan og Rósa er með eina á Indlandi. Þær skrifa okkur árlega en annars vitum við sem minnst af þeim. Ég valdi þessa fósturdóttur mína á sínum tíma þegar ég las það í gögnunum um hana að faðir hennar væri pípari en á þeim tíma var ég ekki með fastan pípara á mínum snærum (og er reyndar ekki núna heldur). Þegar samningurinn var frágenginn og ég farinn að sjá barninu fyrir menntun og tveimur máltíðum á dag fór ég að rýna betur í textann en þá kom í ljós að nýi píparinn minn sat í pakistönsku fangelsi fyrir morð og situr sennilega enn.

Svo veit maður ekkert í hvað þessir peningar fara. Ég fæ senda mynd af kolsvörtu barni einu sinni á ári ásamt texta sem hver sem er hefði getað skrifað. Þetta sannar ekki neitt. Eru bréfin ef til vill frá Nígeríusvindlurum eins og ég lenti í hér? Sennilega ekki, þetta var andstyggilegur húmor af minni hálfu í garð ABC barnahjálpar. Yndislegt fólk þar á ferð sem ánægjulegt er að eiga samskipti við og gaman að taka þátt í þessu verkefni í Pakistan þótt ekki fáist króna út á það frá ríkisskattstjóranum rauðhærða, Skúla Eggert Þórðarsyni.

Athugasemdir

athugasemdir