Hermann Gunnarsson, einnig þekktur sem Hemmi Gunn, var svo almennilegur að bjóða mér í þáttinn sinn á Bylgjunni sunnudaginn 8. nóvember. Til að gera langa sögu stutta þekktist ég boðið strax og leið hreinlega eins og sjálfur Jay Leno hefði slegið á þráðinn og boðið mér vestur um haf. (MYND: Kallinn með gamla hverfið mitt í baksýn.)
Hermann er algjör lífskúnstner, lífsfyllingin nær alveg fram í fingurgóma og það hreinlega geislar af manninum. Hann og Sigurður Helgi Hlöðversson eru einmitt manngerðirnar sem íslenskir útvarpshlustendur þurfa að fá stóran skammt af á laugardögum og sunnudögum svo þeir komist lifandi milli helganna þegar fólk eins og Gissur Sigurðsson, Gunnar Reynir Valþórsson og ég sjálfur brjótum heimsmynd almennings til grunna með Icesave, svínaflensu og brennandi minkabúum. Stundum fær maður bara nóg.
Ég hlakka til að breiða boðskapinn út hjá Hemma á sunnudaginn (í gær sem sagt þegar flestir lesenda minna opna þessa færslu), ljóst er að það verður á tali hjá honum og vel það. Fyrir þá sem ná sér ekki upp úr skammdeginu með vænum skammti af Sigga Hlö og Hemma er hér bent á tvær leiðir til lífshamingju:
1) Lesið bókina Dagur í lífi Ivans Denisovitsj eftir Aleksandr Solzhenitsyn. Þið munið hætta að vorkenna ykkur ekki seinna en á blaðsíðu 5.
2) Hlustið á titillag hinnar einstöku kvikmyndar Jóhannes sem leikararnir sjálfir syngja ásamt Greifunum. Eins og fram kemur í bíóauglýsingum gaf ég þessari mynd fjórar og þrjár fjórðu stjörnur af fimm mögulegum og hún er fullkomlega þess virði. Dúndursmellur í skammdeginu, besta frammistaða Ladda frá fæðingu og besta íslenska myndin síðan Sódóma Reykjavík var og hét. Ég mun standa við allar þessar yfirlýsingar fyrir rétti.