Síðustu tvo daga hef ég dvalið nánast í ægis greipum úti í Rennesøy sem er eyja hérna úti fyrir Stavanger, tengd meginlandinu með jarðgöngum. Þarna fór fram námskeið fyrir stjórnendur á mínu sviði undir stjórn vinnusálfræðingsins Wegard Matre og var býsna athyglisvert, reyndar á köflum bráðskemmtilegt. (MYND: Hluti af gistiaðstöðunni til vinstri og matar- og fundaaðstaða hægra megin. Ég tók ekki myndavélina með og því engar útsýnismyndir en þessi er af heimasíðu hótelsins.)
Rennesøy er eigið sveitarfélag með rúma 4.000 íbúa. Þarna er hálfgert bændasamfélag og búpeningur valsar frjáls um bleika akra og slegin tún, étandi og skítandi. Þetta er nánast annar heimur, aðeins um 40 mínútna akstur frá miðbæ Stavanger. Sjøberg heitir lítið hótel sem stendur alveg niðri við sjó í Østhusvik sem, eins og nafnið gefur til kynna, er á austurströnd eyjarinnar og er alveg klárlega staður sem vert er að heimsækja að sumarlagi. Í aðalbyggingunni er matsalur og tveir rúmgóðir fundarsalir en gistirýmin eru í húsum í kring, hvort tveggja herbergi og heilar íbúðir. Svalir snúa út á fjörðinn með glæsilegu útsýni yfir aðrar eyjar og hrikalega fjallgarða sem blána í fjarska. Eitt er að lesa um norsku firðina í landafræði í barnaskóla og annað að upplifa þá á staðnum. Þetta er staðurinn fyrir ískaldan þrefaldan gin og tónik í sumar. Liggur við að ég bóki strax.
Talandi um áfengi þá vann ég erfiðan persónulegan sigur þegar þjónarnir á staðnum gengu um beina við kvöldverðarborðið í gær og barmafylltu bikarana af köldu og glitrandi hvítvíni með forréttinum. ‘Kun vann for meg!’ sagði ég staðfastlega og huldi glasið með þaulæfðri sveiflu vinstri handar. Vinnufélagarnir litu opinmynntir og með nokkurri lotningu á hinn staðfasta bindindispostula. Deildarstjórinn minn leit íhugulum augum til mín og duldist engum að hún hugsaði: ‘Svei mér alla daga, þarna situr ungur maður sem kann að halda vegi sínum hreinum og gefa gaum að orði drottins.’
Hefði þetta vesalings fólk bara vitað um þann brennandi þorsta sem ólgaði undir sléttu og guðsóttalegu yfirbragði mínu þetta febrúarkvöld, haminn eingöngu af þeim áralanga vana mínum að þverneita mér um áfengi í janúar og febrúar (meira að segja til 12. mars þetta árið!), hefði steinliðið yfir flesta við borðið. En það gerðist ekki. Ég gladdist svo auðvitað í laumi þegar ég vaknaði ferskur klukkan sjö í morgun og mætti gallharður í morgunmatinn, stálsleginn fyrir seinni dag námskeiðsins, á meðan sessunautar mínir bitu á jaxlinn og bölvuðu í hljóði yfir rauðvínsþambi sínu í gær. Svo var það bara heim í helgarfrí klukkan þrjú eftir ágæta dvöl í Rennesøy. Ég mæli með dvöl á þessu ágæta hóteli fyrir alla þá sem hafa unun af góðum mat, fagurri náttúru og brennivíni. Heimasíðan er hérna.