Á Íslendinga degi

17. juniÞó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót…

Þessi fleygi boðskapur Stephans G. Stephanssonar sannaðist rækilega í miklu húllumhæi Íslendinga í Stavanger á þjóðhátíðardaginn 17. júní en gleðin fór fram á De Røde Sjøhusene, huggulegum veitingastað hérna niðri í miðbæ. Að sönnum 17. júní sið hófst dagurinn með rigningu en leikar fóru svo að síðdegis sátum við hérna úti í garði í glampandi sól með glas í hönd en ein af mörgum upphitunum fyrir kvöldið fór einmitt fram hér á Overlege Cappelensgate.

Þetta var allt saman hið besta mál og mjög sérstök upplifun að vera á bar með eintómum Íslendingum á ný, það upplifðum við síðast á Íslandi í jólaheimsókninni annáluðu. Staðurinn var mikið til þéttsetinn og -staðinn enda hefur Íslendingum fjölgað eins og kanínum hér í Stavanger og nágrenni í eftirhreytum hrunsins og sér ekki fyrir endann á búferlaflutningum Íslendinga hingað, langt í frá.

Við blasir síðasta vinnuvika fyrir sumarfrí og það ekki einu sinni í heild sinni þar sem við fljúgum héðan til Óslóar og þaðan til Keflavíkur á föstudaginn. Eigum að lenda þar eitthvað nálægt 15:40 minnir mig. Þetta verður mikil upplifun eins og um jólin og heldur meira flandur á okkur núna, Flatey á Breiðafirði, sumarbústaður í Svínadal og helgi á Akureyri. Seinni vikuna verðum við þó að mestu í Reykjavík enda ófáir sem þarf að heilsa upp á eftir langar fjarvistir. Eitthvað brennivín fylgir þessu væntanlega.

En fyrst eru það þessir síðustu fjórir dagar í vinnunni sem verða nokkuð annasamir. Ég þarf að útbúa gríðarmikla skýrslu fyrir hana Sigfrid sem hefur umsjón með mínu fólki þessar þrjár vikur sem ég verð í burtu, heyra í öllu sumarafleysingafólki og boða það til starfa hingað og þangað og fleira og fleira. Leiðindahandavinna og smáatriðagrúsk sem sagt og mætti segja mér að ég muni setjast sæll og glaður við barinn á Gardermoen á föstudag.

Á maður að mæta með lopapeysuna til Íslands? Þetta er sennilega daprasta sumarbyrjun á þessari öld og eins gott að eitthvað fari að gerast í málinu. Það er hálfkaldhæðnislegt að fara í sumarfrí úr þessari blíðu sem hér er búin að vera og í slyddu og él á Íslandi. Nú er það bara bænin.

Athugasemdir

athugasemdir