6.000 kall fyrir dekk – bylting eða brjálsemi?

dekkjaverÉg öskraði – inni í mér – þegar starfsmaður hjólbarðaþjónustunnar í næsta nágrenni okkar sveiflaði verðlistanum við nef mér og brosandi færði mér móður jörð sem gröf…eða allt að því. Sex þúsund norskar krónur fyrir umganginn af Nokian Hakkapeliitta R ónegldum vetrardekkjum (205/55 R 16) komin undir bílinn sem reyndar felur í sér umfelgun frá Michelin-snjódekkjunum sem fylgdu með honum í haust og ég leit svo sem ekki sérstaklega á áður en þau fóru inn í geymslu. Samkvæmt mati þeirra hjólbarðafræðinga er mynsturdýpt barða þessara því miður svo takmörkuð að notkun þeirra telst nánast grófara lögbrot hér í landi en sumardekk í snjó og hörkufrosti eins og einmitt er núna. Og ég ek enn um á þeim. (MYND: Mínus tólf og snjór. Óvenjulegt í Stavanger en gerist…með tilheyrandi fjárútlátum. Sumardekkin enn undir fáknum.)

Þeir lugu engu, lágmarksmynsturdýpt vetrarhjólbarða samkvæmt norskum lögum er 3 millimetrar og ég gat hvergi greint slíkt dýpi á Michelin-dekkjunum. Talsmaður verkstæðisins sagðist reyndar geta bjargað mér fyrir horn með því að selja mér dekk á 3.500 krónur en hvort tveggja væru gæði þeirra mjög takmörkuð og endingartími nánast enginn. Ætli það sé frádráttarbært frá skatti fyrirtækja hér að hafa slíkan varning til sölu?

Hins vegar bauð hann mér svo Nokian-dekkin en á þau ekki til fyrr en á morgun. Ég þurfti því að takast á við það verkefni sem ég var fimm mínútum áður svo feginn að vera laus við (að ég hélt): Að aka út af verkstæðinu aftur á sumardekkjunum og upp stutta en ísi lagða brekku frá innkeyrsludyrunum og upp á bílastæðið í kring. Þetta gerðist með því að ég ók alveg inn að vegg og bakkaði svo á fullri ferð út af verkstæðinu eftir að starfsmenn höfðu gengið út og beðið alla sem þar voru að komu sjálfum sér og bifreiðum sínum sem lengst í burtu. Drossían hafði þetta á tilhlaupinu en án þess að veggrip kæmi þar mikið við sögu. Ég á því inni glæný Nokian-vetrardekk þarna á morgun. Eina áfallið er verðið.

Sex þúsund norskar krónur eru 133.452 ISK á gengi dagsins í dag. Auðvitað er gengið í tómu rugli en við fyrstu sýn eru báðar upphæðirnar út úr kortinu miðað við það sem ég hef látið fyrir dekk (jafnvel ný) um mína daga. Mér finnst þetta meira í ætt við þokkalegar álfelgur.

Ég reyni að hugga mig við þá staðreynd að Nokian Hakkapeliitta eru margverðlaunuð vetrardekk og einmitt óneglda útgáfan hefur rúllað upp hverju prófinu á fætur öðru hér, í Svíþjóð og Rússlandi (vonandi gáfulegri próf en hið vitfirringslega elgspróf sem auðvitað er runnið undan rifjum Svía). Sjaldgæft er að hafa þurfi vetrardekk undir bílum meira en þrjá til fjóra mánuði á ári á Stavanger-svæðinu svo vafalítið mun ég eiga og nota þessa rómuðu finnsku framleiðslu fram á eftirlaunaár og jafnvel lengur. En ég er samt að borga yfir 10 prósent af verði bílsins fyrir dekk!!!

Svo sit ég hérna með Neskaffi þegar ég ætti að drekkja sorgum mínum í sætum miði. Nýja líkamsræktarátakið bannar það. Mysuprótein og maltódextrínkolvetni frá Nordic Power er áfengi dagsins í dag. Miklu ódýrara auðvitað…ekki veitir af eftir dekkin!

Athugasemdir

athugasemdir