XV. Gamlir hundar

IMG_20141025_221613Helsta tilhlökkunarefni allra októbermánaða er lokið, árlegu móti okkar Garðbæinga fyrsta vetrardag. Þar sem þetta var fimmtánda samkoman síðan verkefninu var hleypt af stokkunum á Sunnuflötinni árið 2000 þótti annað ótækt en að hafa daginn sérstaklega veglegan. Þegar í vor sá undirritaður fyrir sér stífa hátíðardagskrá allan daginn en hægt og rólega kom í ljós að slíkt er greinilega full langt seilst í metnaðinum þegar hlutaðeigandi eru komnir á fimmtugsaldurinn. Lendingin varð þó sú að menn náðu að hittast í keilu í Öskjuhlíðinni klukkan 15 áður en mætt var í fordrykk hjá Andrési og Thelmu sem voru hýsingaraðilar ársins. (MYND: Kannski ekki besta opnumynd sem ég hef tekið en Hilmar Veigar Pétursson með kaffibolla á lofti í partýi er bara Pulitzer-verðlaunaefni.)

Mjög hressandi var að koma úr 12 stiga hitanum í Sandnes í ósvikið íslenskt snemmvetrarloftslag og greinilegt að við vorum einstaklega heppin með veður, stillt, bjart og Esjan hvít niður í miðjar hlíðar. Hefðbundin Bónusferð var á dagskrá strax og opnaði þar og stöndum við í mikilli þakkarskuld við Kristin verslunarstjóra sem tók sérstaklega frá fyrir okkur hamborgarhrygg til jólaáts.

Að vanda var kvöldið svo með besta móti og ómetanlegt þegar gamli hópurinn kemur saman og rifjar upp löngu horfin ár og áhyggjulausa daga æskunnar og já já, ég ætla nú ekki að fara að grenja hérna… Ákveðið hafði verið að fá Grillvagninn til að mæta á staðinn og annast matseld og ekki er annað hægt að segja en þeir tvímenningarnir hafi staðið fullkomlega undir væntingum og vel rúmlega það. Ég fékk innsýn í aðrar víddir þegar ég smakkaði bernaissósuna, vá. Alla vega meira en óhætt að mæla með Grillvagninum fyrir samkomur af þessu tagi og ekki verra að þeir IMG_20141025_154727koma með allan borðbúnað með sér. Mikill lúxus og verðið ekki hærra en gengur og gerist á þokkalegum veitingahúsum (og margfalt ódýrara en á gerist á nokkru veitingahúsi hér í Noregi!).

Rúsínan í pylsuendanum var Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari Skálmaldar, sem mætti með gítarinn og stóð fyrir tónlistargetraun sem ég misskildi reyndar aðeins. Fólst getraunin í því að skipt var í lið og svo lék Þráinn upphaf einhverrar rokkperlu sem hvert lið átti þá að reyna að bera kennsl á, skrifa niður á blað og í lokin fóru liðin svo yfir listann hvert hjá öðru. Ég skildi reglurnar í upphafi þannig að hvert lið ætti að hrópa upp nafn lagsins og vera fyrst til þess en jæja, eins og Murphy sagði, sama hvað þú reynir að útskýra eitthvað þannig að allir skilji það þá er alltaf einhver sem skilur það ekki. Sekur!! En ég fullyrði að enginn þarna þekkti samt Dead Skin Mask með Slayer nema ég! Snilldarframmstaða hjá Þráni, fáum alla hljómsveitina næst strákar! (MYND: Þráinn steytir hornin eftir dúndurframmistöðu.)IMG_20141025_221702

Í alla staði gaman og ekkert nema frábært að sjá Reykjavíkina á ný með sínum gulu strætisvögnum og rölta um Laugaveginn. Ekki heyrðist of mikið mælt á íslenska tungu þar. Við vorum að spá í að tala bara norsku svo við værum eins og hinir túristarnir. Fyrirspurnum rigndi yfir mig á Facebook um hvort hægt væri að hitta mig og af hverju förin hefði farið álíka leynt og nýju byssurnar hjá löggunni. Ég er auðvitað mjög þakklátur fyrir að eiga enn vini sem vilja hitta mig, slíkt verður seint ofmetið. Þegar stoppað er í sólarhring á Íslandi hefur maður hins vegar því miður lítil tök á því og við hjónin þurftum meira að segja að skipta liði til að koma að öllum verkefnum. Eftir heimsókn til pabba út á Nes, þangað sem Kári bróðir og fjölskylda ómökuðu sig við að koma líka til að ná mér yfir einum kaffibolla, og stutt en ánægjulegt spjall á Café París í hádeginu við einn góðan vin sem hefur verið í sveitadvöl og uppihaldi á vegum hins opinbera fyrir austan fjall síðustu ár, var eiginlega bara kominn tími á sturtu, rakstur og mætingu í Keiluhöllina. Lengra stopp um áramótin, þá nær maður að rekast á fleiri.

Þakka Gömlum hundum og öllum hlutaðeigandi góðar stundir (Icelandair má reyndar fara að endurskoða þessa þreyttu klukkutímamillilendingu í Bergen á leið til Stavanger þar sem stoppað er í klukkutíma, farþegar taldir átta sinnum í heitu og loftlausu farþegarými á meðan flugfreyjur biðja viðstadda minnst tíu sinnum um að halda kyrru fyrir í sætunum).

Athugasemdir

athugasemdir