Nýafstaðinnar helgar var heldur betur beðið með eftirvæntingu í sumum garðbæskum hjörtum en á laugardaginn fór samkoman XIV. Gamlir hundar fram með mikilli viðhöfn. Hérna er ekki um nýjustu skrautfjöðrina í samkvæmislífi Hundaræktarfélags Íslands að ræða heldur árlegt mót okkar gömlu vinanna úr Garðabænum sem gengum saman gegnum þykkt og þunnt á ofanverðri 20. öldinni, þar á meðal allt skólakerfi bæjarins sem auðvitað brást gjörsamlega í því félagslega taumhaldshlutverki sem sumir síðari tíma fræðimenn hafa viljað eigna slíkum kerfum.
Eins og þeir, sem enn muna að einhverju leyti undirstöðureglur rómverskra talna, kunna að hafa ráðið nú þegar var hér um fjórtándu hundana að ræða en þeir fyrstu litu dagsins ljós 28. október 2000 á Sunnuflöt 18, þáverandi heimili undirritaðs. Síðan hafa menn skipst bróðurlega á að hýsa þennan stórviðburð (að undanskildum þremur einstaklingum sem enn hafa aldrei verið gestgjafar) og er þetta nú orðið föst haustgleði í lífi okkar og – vitaskuld – eina skiptið í meðalári sem sumir okkar líta gránandi hár, stækkandi vambir og vaxandi biturðina í augnaráði hinna.
Hilmar Veigar Pétursson og Guðrún Elísabet Stefánsdóttir tóku að sér hýsilhlutverkið í ár á glæsiheimili sínu að Hlynsölum í Kópavogi þaðan sem einmitt nýtur einstakrar útsýnar til æskuslóðanna í Garðabænum og reyndar fleiri staða. Mæting var með ágætum eins og reyndar nánast alla hundana fram að þessu en kvenhelmingurinn – tíkurnar – voru hafðar með í ár í annað eða þriðja skiptið og líklega eina vitið að svo verði bara framvegis af praktískum ástæðum enda nennir enginn sem skartar tveimur eistum að vera að stilla upp einhverju sushi-hlaðborði þegar brennivínið drýpur af hverju strái allt um kring. Mjög gott sushi samt og persónulegur sigur hjá mér að koma því niður.
Þótt ég ræði hér um góða mætingu af hreinni helgislepju er reyndar full ástæða til að tveir ungir læknar í Ósló og Stokkhólmi fari verulega að athuga sinn gang. Ég ætla svo sem ekki að fara að hefja einhvern styr hérna með því að nefna nöfn en fyrstu stafirnir eru Alfreð Harðarson og Jón Ásgeir Bjarnason. Ég bý í Skandinavíu líka strákar mínir. Nú orðið fara flugvélar þaðan til Íslands. Úrbætur takk.
Við settum annars persónulegt heimsmet á leið okkar til Íslands á föstudaginn þótt ekki hefði verið lagt upp með það að leiðarljósi sérstaklega. Millilending var á Kastrup-flugvellinum í Höfn kaupmanna á leið til lands íss og elda og nam strandhögg þetta rúmum fimm klukkustundum. Þótti sá tímarammi henta nokkurn veginn til að endurnýja kynnin við Hard Rock Café borgarinnar eftir langan aðskilnað sem sennilega hófst við hörmulegt og ótímabært brotthvarf Íslandsdeildarinnar úr Kringlunni á sínum tíma. (MYND: Rósa á barnum á Hard Rock Køben.)
Var farið í þessa aðgerð í sól og blíðu og hlaust af hin besta skemmtan enda gin & tónik sjaldan lengra en skammt undan. Nýafstaðnir gestgjafar okkar, Aldís Brynjólfsdóttir og Brynjar Már Ottósson, ruku upp til allra útlima þegar þau fréttu af okkur í borginni, þrifu með sér barn sitt eingetið, Tinnu, og sátu með okkur hálfan annan tíma á veitingastaðnum, þó ekki væri nema til að leyfa okkur að þurrka gjörsamlega út það litla mannorð sem þau áttu eftir í landinu.
Þegar rúmlega ein og hálf klukkustund var í áframhaldandi ferðalag til Íslands þótti tímabært að koma sér um borð í lest og bruna upp á Kastrup. Fyrir einhverja magnaða tilviljun stóð einmitt Kastrup líka á skiltinu sem ég sá fjarlægjast út um lestargluggann hægt en þó með auknum hraða um stundarfjórðungi síðar. Næst hélt færleikur okkar áfram á ógnarhraða yfir að því er virtist vera endalaus brú og öðrum stundarfjórðungi síðar mátti sjá skilti og skilti á stangli á framandi tungu sem vakti þó einhverjar slæmar minningar innra með mér. Skildist mér brátt að þetta myndi vera sænska og varð í framhaldinu ljóst að ég var staddur í Malmö. (MYND: Úps.)
Ég kýs að hlífa lesendum við vandræðalegum lýsingum á örvæntingarfullum hlaupum í leit að brautarpalli 2b sem reyndist hafa verið komið haganlega fyrir á ósýnilegum útkjálka stöðvarinnar, frekar neikvæðum samskiptum við sænskan miðasjálfsala sem greinilega náði ekki utan um það að eini ferkantaði hluturinn með segulrönd sem kæmist inn í hann væri væntanlega greiðslukort og þeirri áskorun sem biðin í lestarferðinni var til baka (neyddumst til að greiða ekki fyrir hana), feginleikanum við að vera á Kastrup á ný, svipnum á brottfararspjaldakallinum í öryggisleitinni þegar hann vísaði okkur í neyðarröðina með úrskurðarorðunum “Ja, er det Islendinger?” en auðvitað var þetta allt mikið ævintýri…alla vega eftir á.
Núna hef ég hins vegar í fyrsta og vonandi eina skiptið í þessu lífi verið staddur í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi á átta klukkustunda tímabili. Ég leyfi mér að kalla mig samnorrænan.