Ég er vitlaus í pólitík, alveg óttalega vitlaus. Ég kýs til dæmis yfirleitt ekki ef það rignir, þá nenni ég hreinlega ekki á kjörstað. En þetta bensínlækkunarfrumvarp sjálfstæðismanna hlýtur að vera gegnsæjasta atkvæðanet mannkynssögunnar og bið ég bara stjórnmálafræðinga landsins að leiðrétta mig ef þetta er ekki kórrétt kenning hjá mér:
Sjálfstæðisflokkurinn lagði í dag fram frumvarp sem lækkar verð á eldsneytislítranum um 28 krónur. Lækkunin skilar sér strax við dæluna til almennings og lækkar auk þess vísitölu neysluverðs um hátt í eitt prósent, sem eykur kaupmátt og hefur bein áhrif til lækkunar á greiðslubyrði lána. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins. (af vef Vísis í dag)
Einmitt. E=mc². Það er að segja = Sjálfstæðismenn veðja á að landinn felli Icesave III 9. apríl. Við þetta springur Jóhönnustjórnin (Allah sé lofaður). Þá verður boðað til kosninga. Í þeim kosningum muna Íslendingar ekki lengra aftur en til marsloka er fagurt bensínfrumvarp Sjálfstæðisflokksins veitti eina vonarneista íslenska bílsins. Ergo: X-ið skilar sér við D-ið og allt verður eins og það á að vera.
Ég ætla að leggja það á mig um helgina að fara til íslenska konsúlsins sem situr hérna í Sandnes og setja utankjörstaðanei við Icesave þó ekki sé nema í þeirri veiku viðleitni að fella Icesave og sanna afstæðisbensínkenningu mína sem ég fæ svo síðar friðarverðlaun sjálfs Nóbels fyrir og græt eins og Laxness við þá afhendingu árið 1955.