Wheels of Terror (þó ekki eftir Sven Hassel)

snjdekkÉg hefði átt að barma mér meira yfir þessum dekkjakaupum, hvílíkir kostagripir, þrátt fyrir naglaleysi þeirra er veggripið á ís og snjó nánast eins og á þurru malbiki og spólvörnin grípur aldrei inn í. Er þetta hægt með einhverju úr gúmmíi spyr ég bara. Mér líður nánast eins og ég sé að horfa á hinn goðsagnakennda þátt Sigurðar Richter, Nýjasta tækni og vísindi, sem lesendur komnir af léttasta skeiði minnast án efa með tár á hvörmum. (MYND: Þetta er nú samt allur galdurinn. Einfalt?)

Kostnaðurinn þurrkaðist svo bara út á einu bretti, 6.000 krónurnar sem ég saknaði svo mjög. Forstjóri NorSea Group heimsótti okkur á kaffistofuna í gær, íbygginn á svip, og tilkynnti með viðhöfn að í kjölfar algjörs metárs í viðskiptum fyrirtækisins fengju allir starfsmenn 10.000 króna jólabónus og kærar kveðjur frá eigendunum fyrir vel unnin störf á árinu. Nú get ég farið og keypt mér þrjú dekk í viðbót!

Það voru reyndar ekki einu góðu fréttirnar í gær. Aðeins klukkutíma eftir jólabónusinn fékk ég tilboð um nýja stöðu innan fyrirtækisins sem ég gladdist vægast sagt mjög mikið yfir. Fréttastofa atlisteinn.is greinir nánar frá málinu síðar en lætur leka með að ég verð áfram í útleigu hjá ConocoPhillips (ég yfirgef þetta mötuneyti ekki fyrir neitt!).

Hér hefur verið kalt í veðri síðustu daga eins og greint var frá í síðasta pistli. Hófst kul þetta um helgina og ný vinnuvika skall svo á með ferskum tólf í mínus og fannkomu. Það var eins og við manninn mælt að allir Svíarnir í minni deild nema einn hringdu sig inn “veika” á mánudaginn og hafa verið “veikir” upp á dag síðan. Það fyndna er að ýmsir bjuggust við þessu fyrir fram. Það virkilega ófyndna er að í skjóli þessa norræna ofurvelferðarmódels (sem Árni Páll Árnason heldur að sé líka á Íslandi) komast menn upp með þetta eins og að drekka vatn og geta bara spókað sig á náttfötunum heima með kaffibolla og Bailey’s eins og þeir vilja á meðan vinnufélagar þeirra sinna þeirra störfum og þurfa að sætta sig við liðsauka frá starfsmannaleigum sér við hlið. Nú hefur fólk frá starfsmannaleigum ekkert til saka unnið, ég vann sjálfur hjá einni slíkri á sláturvertíðinni góðu haustið 2010. Vandinn er að það er hér í dag og þar á morgun og þekkir ekki vinnubrögðin, taktinn og hjartsláttinn á vinnustaðnum eins og fastamennirnir gera. Þetta hægir á öllu…en það gera Svíar svo sem líka svo áhrifin núllast kannski út.

Athugasemdir

athugasemdir