Það er ekki slæmt að vera stefnuvottur á þessum síðustu og verstu. Ég brá mér út á KFC hérna í Mosó áðan þrátt fyrir fögur fyrirheit um stíft aðhald og þegar ég kom til baka renndi einn í hlaðið hérna til að afhenda mér milljónustu tilkynninguna um yfirvofandi nauðungarsölur, gjaldþrot og ég veit ekki hvað. Skýr merki um uppgangstíma stéttarinnar var stór og mikill Land Cruiser-jeppi, upphækkaður á hrikalegum vöðlum og allur hinn vígalegasti. Greinilega mikið lagt í gripinn. Stutt rannsókn á bilasolur.is leiddi í ljós að gripurinn legði sig á minnst fjórar milljónir. (MYND: Toyota – tákn um gæði.)
Þarna er komið enn eitt dæmið um atvinnugrein sem blómstrar í kreppunni. Af öðrum má nefna bruggvöruverslunina Ámuna þar sem ég kaupi öll mín eðalvíngerðarefni, Kolaportið, heimilisiðnað og af einhverjum ástæðum Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum. Mér er minnisstætt þegar fyrsti stefnuvotturinn heimsótti mig árið 2000 (sá fyrsti sem heimsótti mig þ.e., ég efast um að hann hafi verið fyrsti stefnuvotturinn) til að færa mér fjárnámsbeiðni vegna 30.000 króna virðisaukaskattskuldar. Hann var á ryðgaðri Lödu. Nú mæta menn hérna á hálfgerðum fasteignum með bréfabunkana og hafa greinilega nóg að gera. Þetta er tímanna tákn.
Auðvitað er gott að hagkerfið er ekki svo botnfrosið að allar atvinnugreinar lepji dauðann úr skel. Áman var til dæmis komin að fótum fram þegar kreppan skall á og stutt í að þar yrði dyrum lokað endanlega á meðan engum datt annað í hug en að versla í ríkinu. Nú dregst salan á þeim bænum hægt en örugglega saman með auknum álögum fjármálaráðherra en fullt er út úr dyrum í Ámunni alltaf þegar ég kem þangað (kannski bara af því að fréttist af mér þar, hver veit?). Eins og ég hef skrifað um áður fæst líka glettilega gott hvít- og rauðvín úr hráefnunum frá þeim og mikil synd að kreppu og þjóðargjaldþrot þurfi til að maður uppgötvi hið skemmtilega sport sem heimavíngerð er.
Ef marka má Fréttablaðið er von á frekari áfengishækkunum en þar var í gær eða fyrradag sagt frá skýrslu einhverrar nefndar sem telur enn töluvert svigrúm til að hækka brennivínið og nota um leið tækifærið og draga úr áfengisböli landans. Um leið er lagt til að bann við áfengisauglýsingum verði afnumið!