Viðburður

vidburdurEldiviður vetrarins er kominn í hús  eða réttara sagt bílskúr. Loksins létum við verða af því stórvirki, eftir að hafa rætt og hugsað málin síðustu þrjú haust, að kaupa eitt bretti af blönduðum viði, 1.000 lítra eins og það var auglýst, og hlaða staflanum inn í bílskúr. Mun hagkvæmara en það rótgróna fyrirkomulag síðustu þriggja ára að rölta eftir einum og einum strigapoka af eldiviði út í búð og greiða 49 krónur fyrir hann. Þetta hlass kostaði 800 krónur og við greiddum 200 aukalega fyrir heimsendingu.

Seljendurnir birtust hérna með kerru upp úr hádegi í dag, bökkuðu upp að skúrnum og viðburður hófst. Þetta tók um 15 mínútur og nú er bara að sjá hvort staflinn dugi veturinn. Það er nú ekki daglegt brauð að við kveikjum upp í arninum, helst bundið við helgarnar að við nennum að standa í þessu, en þetta er enn næstalgengasta aðferð til húshitunar í Noregi á eftir rafknúnum lausnum. Við erum með tvo olíufyllta rafmagnsofna sem hafa dugað ágætlega og eru tiltölulega ódýrir í rafmagnsneyslu sinni. Þessu má rúlla um á hjólum eins og snúran leyfir og lítið mál að setja annan ofninn inn í svefnherbergi um klukkustundu áður en gengið er til náða.vidburdurii

Hér er svo sem ekki kalt að ráði nema kannski í janúar og febrúar en desember fylgir með sem bónus ef veturinn er leiðinlegur. Eins og sá síðasti var. (MYND: Þúsund lítrar af eldiviði komnir í “snyrtilega” stafla í skúrnum og bíða örlaga sinna í forgarði helvítis sem er arinn heimilisins.)

Annars er lífið frábært. Hér fengum við sýnishorn af ekta norsku hausti á föstudaginn en þá rigndi þvílík ósköp frá morgni til kvölds að sennilega hefur mátt mæla úrkomuna í metrum í stað millimetra sem hefðbundið er. Verslunarmiðstöð ein fylltist af vatni þegar holræsin kringum hana höfðu ekki undan lengur. Enginn dó. Þessu fylgdi alvöru þrumuveður og sló eldingum svo títt niður undir kvöld að minnti á heimsendalýsingar Völuspár og við sáum ekki færri en 30 á meðan við ókum E39 frá Stavanger til Sandnes, rúmlega tíu mínútna spöl. Í gær var svo sólbaðsveður og í dag er léttskýjað og svo hlýtt að ég svitna við að sitja innandyra. Skjótt skipast.rigning (MYND: Á E39 á föstudaginn. Skyggni ekkert, himinn logandi af eldglæringum sem reyndar náðust ekki á mynd.)

Á morgun, 9. september, ganga Norðmenn að kjörborðinu í stórþingskosningum og hafa síðustu vikur einkennst nokkuð af þessu. Kosningabarátta hér verður þó ekki eins yfirdrifin og á Íslandi, til dæmis mega stjórnmálaflokkar ekki kaupa sjónvarpsauglýsingar í Noregi sem er nú bara gott og blessað. Kappræður og kosningaþættir eru þó í loftinu, margt af því fróðlegt.

Nokkur teikn eru á lofti um að Verkamannaflokkur Jens Stoltenberg verði ekki við völd eftir morgundaginn en Hægriflokkurinn, Framfaraflokkurinn og Kristilegi þjóðarflokkurinn myndi hugsanlega næstu ríkisstjórn. Þetta gæti leitt til ýmissa breytinga sem mér persónulega hugnast ágætlega en eins gæti farið svo að Stoltenberg héldi velli, um miðja síðustu viku voru 750.000 kjósendur enn óákveðnir samkvæmt frétt NRK en það er um fimmtungur atkvæðisbærra Norðmanna.

Skósveinar Stoltenberg hafa barist hatrammlega fyrir framtíð flokksins í ríkisstjórn, gefið rósir í verslunarmiðstöðvum, tekið upp svokallað “plan B”, þrátt fyrir margra mánaða yfirlýsingar um að flokkurinn notaðist bara við eina skothelda áætlun, og gengið hús úr húsi með fagnaðarerindi sitt. Útvarpsbrandari síðustu viku var spurningin “Hva er rødt og går fra dør til dør?”. Svarið er auðvitað hvorki pósturinn né jólasveinninn heldur Arbeiderpartiet.

Athugasemdir

athugasemdir