Við sólstöður

justiceÞað er skynsamleg ákvörðun hjá þjóðþinginu að velja dimmasta dag ársins til að samþykkja frumvarp um manndrápsskatta á þegna sína. Reyndar er þjóðþing mikið öfugmæli þegar rætt er um Alþingi sem mun án efa samþykkja Icesave-frumvarpið með bros á vör þrátt fyrir að 70 prósent kjósenda séu andvígir því. Ítalskur fasistaleiðtogi sagði fyrir 80 árum að lýðræðið væri rotnandi hræ. Að mér laumast sá grunur að hann hafi haft nokkuð til síns máls.

Aftarlega í skattabandormi þingsins leyndist ákvæði um að heimila landsmönnum að taka út eina og hálfa milljón af séreignasparnaði til viðbótar við milljónina sem hjá flestum gekk til þurrðar síðastliðinn föstudag eftir úttekt síðan í apríl. Fátt er sem sagt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. (MYND: Lady Justice mætir seint og illa við Austurvöllinn þessa dagana enda með bindi fyrir augum sem fleiri.)

Undir kvöld í dag stóð ég fyrir einum harðsvíruðustu ísskápaflutningum síðan þjóðflutningarnir miklu áttu sér stað. Í Fréttablaði dagsins auglýsti ég ísskápinn minn til sölu enda hefur hann staðið ónotaður úti í bílskúr þar sem við styðjumst við ísskáp konunnar (köld eru kvenna ráð segir máltækið og þar af leiðandi hljóta kvenna ísskápar að vera öðrum meðbræðrum sínum kaldari). Ekki stóð á viðbrögðunum og fólk er enn að hringja, þegar þetta er ritað, og spyrjast fyrir um örlög skápsins.

Hringjari númer tvö, sem reyndar var ekki frá Notre Dam heldur Húsavík en búsettur í Kópavogi, hreppti hnossið og samþykkti að greiða 25.000 krónur fyrir gripinn með inniföldum flutningi sem átti sér stað á háannatíma umferðar. Skápkvikindið er ekki stórt en rúmast þó ekki í fólksbíl svo leigja þurfti sendibíl hjá Bílaleigu Akureyrar. Gjald fyrir tvær klukkustundir er 3.000 krónur sem telja verður hóflegt. Frá bílaleigunni, sem er í Skeifunni, var rússað upp í Mosó, skápurinn sóttur og hann keyrður í Kópavog. Þar sem við frúin erum með þjónustulundaðri einstaklingum bárum við skápinn inn og að auki ónýtan skáp kaupandans út og hentum honum á Sorpu í bakaleiðinni. Á mettíma tókst okkur svo að skila bílaleigubílnum til eigenda sinna klukkan 17:42 en ævintýrið hófst allt klukkan 16:21 svo millitíminn hlýtur að teljast á Schumacher-stigi. Mjög gefandi allt saman.

Af því að ég er svo jákvæður á þessum lokadegi vaxandi skammdegis slæ ég botninn með þökkum og hrósi til Ara Edwald, forstjóra 365 miðla, fyrir að sýna þá miklu rausn á krepputímum að gefa öllum starfsmönnum fyrirtækisins úrbeinað Húsavíkurhangikjötslæri, KEA-hamborgarhrygg á beini og Fangavaktina á mynddiski. Þetta verður að teljast höfðinglegt enda sparaði matvælahluti gjafarinnar þiggjendum sínum að meðaltali þúsundir króna sem þá er hægt að nota til brennivínskaupa enda verður dropinn síst ódýrari á næstunni eftir að nýjasta afkvæmi fjármálaráðherra leggur kalda hramma yfir hnípna þjóð í vanda.

Athugasemdir

athugasemdir