VG fjallar um Kötlugos

eldfjllHelgartímarit VG (VG Helg) gerir metnaðarfulla úttekt á væntanlegu Kötlugosi og íslenskum eldfjöllum almennt. Rætt er við Ara Trausta Guðmundsson jarðeðlisfræðing sem leiðir norska lesendur í sanninn um íslensk eldfjöll og eðli þeirra. Norðmenn hafa mikinn áhuga á íslenskum eldgosum og mikið fór hér fyrir Grímsvatnagosinu í maí enda gengu flugsamgöngur í Stavanger allar úr skaftinu og búinn var til sérstakur lykill í launakerfi háskólasjúkrahússins fyrir starfsfólk sem var ‘askefast’ uppi á Íslandi eins og það var kallað. Eldgos á Íslandi hafa reyndar verið umræðuefni Skandinava frá upphafi vega og var frægt þegar Danir lýstu því yfir í miðju Heklugosi einhvern tímann á miðöldum að Hekla væri op niður til helvítis. Íslendingar svöruðu því til að þetta væri alveg rétt enda mætti heyra mælt á dönsku upp úr gígnum á góðum degi.

Talandi um góða daga þá standa þeir einmitt yfir núna hérna í Stavanger. Fyrstu dagar nóvembermánaðar hafa heilsað okkur með glampandi sól og 12 – 15 stiga hita. Á miðviku- og fimmtudag vann ég utandyra við höfnina í Risavika íklæddur stuttermabol og sólgleraugum (og gulu endurskinsvesti og hjálmi reyndar en slíkt bjóða öryggisreglur á hafnarsvæðinu). Slíkt hef ég aldrei upplifað í nóvembermánuði. Á sama tíma í fyrra rigndi mikið en þá vann ég innandyra, fyrst í sláturhúsi og svo á sjúkrahúsi, svo ég átti minna undir veðri og vindum en nú.

Ég setti persónulegt met í yfirvinnu í vikunni sem nú var að líða. Japanska flutningaskipið Tenzai færði okkur 4.200 tonn af glænýjum rörum frá Sumitomo-stálsmiðjunni í Osaka. Sendingin var öll til BP og var landað í Risavika-höfn sem kaupir þjónustu af NorSea Group. Átta manna röragengi, þar á meðal ég, var sent yfir til Risavika og unnið frá 07:30 til 21:00. Ekki dugðu minna en tveir lóðsbátar til að leggja þetta bákn að kæjanum en Tenzai ristir eina sjö metra og er rúmlega 200 metrar að lengd með fimm hyldjúp lestarrými.
sptalalf
Að afloknum öryggismálafundi (n. SJA = Sikker Jobb Analyse) með skipstjóranum og fulltrúum Sumitomo og BP í Stavanger hófst löndunin sem gekk vel fyrir sig, um 80 tonn á klukkutíma. Þökk sé Øyvind kranamanni, sem sat vaktina í krananum af stakri prýði alla dagana, og sallafínu veðri en að hífa rör og gáma í roki er eitt versta helvíti sem fyrirfinnst og ekki leyfilegt í meira en 22 metrum á sekúndu. (MYND: Rósa gat ekki hugsað sér að hefja nýtt starf og yfirgefa háskólasjúkrahúsið án minjagripa. Nú gengur hún svona til fara hér á heimilinu og drekkur brennivín gegnum rör.)

Dallurinn var svo tæmdur í gær, laugardag, en þá var unnið frá 07:30 til 16:00 og klárað við mikinn fögnuð viðstaddra. Ég fann varla fyrir útlimum þegar ég tók strætó heim þar sem flaska af Hammer-vodka og hvítvínsbelja biðu mín ásamt verðandi eiginkonu. Sjaldan hef ég átt brennivín svo skilið og eftir þessa viku en auðvitað á ég það yfirleitt skilið. Við borðuðum unaðslegan kjúkling og kveiktum svo upp í arninum. Ég man ekkert eftir klukkan 22. Svaf svo út í dag sem líkaminn er engan veginn vanur svo ég vaknaði á klukkutíma fresti frá klukkan 07 og þar til ég lak að lokum út úr bælinu klukkan 12:08.

Á morgun vakna ég aftur klukkan 06:00. Þá verður allt eðlilegt á ný. Hvernig verður þetta þegar maður fer á eftirlaun?

Athugasemdir

athugasemdir