Verkföll – best að vera ekki í vinnu!

verkfallÞetta er lagleg staða núna, flugumferðarstjórar leggja niður störf í fjóra tíma í fyrramálið, flugvirkjar eru ekki sáttir heldur og hugsanlega á leið í verkfall og hundrað löggur tóku sér mótmælastöðu í dag. Ég sendi öllu þessu fólki baráttukveðjur, allir sem búa við það að skerða lífslíkur sínar með slítandi vaktavinnu eiga að fá greitt í samræmi við það. (MYND: Þetta lið kann að boða verkfall!)

Ég hef átt minn skerf af slíku brölti og þetta er yfirleitt ekki spennandi. Vissulega getur gamla níu til fimm rútínan orðið ansi þreytandi og starf mitt hjá Securitas árin 1995 – 1999 bauð jú upp á að maður átti frí frá vinnu aðra hverja viku eftir sjö 12 tíma næturvaktir hina vikuna sem gat verið ágætt. Annars var ég bæði í dyravörslu og námi með þessu svo frívikan var svo sem ekkert frí. En maður losnaði alla vega við námslán og kynntist alls konar vitfirringum sem ég held enn sambandi við. Árshátíð fyrrverandi starfsmanna Securitas er til dæmis haldin í maí ár hvert og grátið yfir ljúfsárum æskuminningum.

Annars þakka ég almættinu fyrir að vera ekki í vinnu núna, slíkt væri bara ekki hægt. Auk ritunar MA-ritgerðar undirbý ég verklega hluta MA-verkefnisins sem verður spjallþáttur á Bylgjunni um nafngreiningu grunaðra manna í fjölmiðlum þar sem ég fæ fjóra valinkunna menn til að ræða strauma og stefnur í þeim málum. Ég ætla samt ekki að lofa neinu þar sem útvarpssvið 365 ætlar að sýna mér þá greiðvikni að leyfa mér að taka þáttinn upp en hann fer ekki í loftið nema hann verði bærilega safaríkur. Svo ég verð að tryggja það.

Auk þessa stendur yfir grimm atvinnu- og húsnæðisleit í Stavanger sem er öll að taka á sig mynd. Var til dæmis loksins að landa fyrsta atvinnuviðtalinu sem fer fram um leið og við komum út. Eins gott að standa sig á seinna norskunámskeiðinu hjá Mími og liggja í norskum fjölmiðlum næstu tvo mánuði svo ég hljómi ekki eins idjót…sem ég geri örugglega, ég hef ekki enn þá heyrt þá mállýsku sem töluð er í Stavanger en hún er sögð óskiljanlegt muldur og gerólík mæli Óslóarbúa sem þó eru ekki nema í 500 km fjarlægð. Manni gefst varla tími til að drekka brennivín.

En hvað væri lífið án áskorana…?

Athugasemdir

athugasemdir