Vanþakklæti – laun heimsins

mavarÉg gerði það mér til dundurs á sunnudagskvöldið að fleygja nokkrum brauðbitum út í garð handa mávum nokkrum sem sátu á mæni hússins á móti og létu sultarlega. Við gefum gjarnan mávum í garði sjúkrahússins en þar heldur tiltekinn hópur til og hefur aldeilis tryggt sér svæðið út á við auk þess sem miklar pólitískar deilur eru með þeim innbyrðis líka.

Mávarnir á sunnudaginn voru um það bil fimm og komu í sig tveimur brauðsneiðum á tiltölulega stuttum tíma. Einn sat á ljósastaur beint fyrir framan mig og lét hina vita með ákveðnu hljóðmerki þegar næsti brauðmoli flaug út í garðinn. Þá röðuðu hinir sér upp og einn í einu kom og náði sér í bita með miklum vængjaslætti og fyrirgangi, allt þaulskipulagt.
mavarii
Ég hætti svo leiknum, aðallega vegna hávaða, og fór inn í eldhús til kaffigerðar. Þegar ég kom fram skömmu síðar voru mávarnir horfnir, allir nema umferðarstjórinn á staurnum sem horfði á mig óræðu augnaráði. Það var þá sem ég kom auga á glænýjan aðskotahlut sem enn lak hægt niður stofugluggann. Einhverjum matargestanna hafði greinilega orðið brátt í brók af kræsingunum og það svo um munaði. Þegar ég gekk upp í svefnherbergi og leit út á svalirnar mátti þar sjá netta framhaldsseríu skreyta svalahandriðið.

Megi þeir fiðruðu djöflar veslast upp við sult og seyru, löng verður þeim biðin hér á bæ…

Athugasemdir

athugasemdir