Uppvask og ýmsar minningar úr veitingabransanum

uppvaskSíðan á fimmtudaginn er ég búinn að hreinsa meira magn af borðbúnaði en alla ævina á undan samanlagt þótt ég hafi aðeins lagt að baki þrjár vaktir í nýju aukavinnunni á N.B. Sørensens Dampskibsexpedition. Þetta er auðvitað allt gert í stórvirkum uppþvottavélum sem dauðhreinsa heilu tonnin af diskum, glösum og hnífapörum á 90 sekúndum og afhenda þetta svo brennandi heitt til þurrkunar, pússunar og röðunar. Ég fékk eldskírnina strax á fyrstu vaktinni á fimmtudag þegar húsið var stútfullt af matargestum og allt vitlaust í eldhúsinu. Ég var fljótlega kominn með bunka af útötuðu leirtaui upp fyrir haus og inn á milli komu mjög tafsöm verkefni svo sem að þurrka vínglösin á meðan þau eru heit til þess að draga úr líkum á tuskuförum og pússa nýþvegin hnífapör upp úr heitu vatni blönduðu með ediki til að fá þennan sindrandi aukaglampa sem er stolt hvers veitingahúss. (MYND: Skítug eldhúsáhöld. Þetta er ekki á mínum vinnustað en minnir alveg á hann samt.)

Það er sem sagt á við önn í húsmæðraskóla að stunda uppvask á þokkalega metnaðarfullum veitingastað. Hefði ég vitað þetta með vínglösin hefði ég getað sparað mér mikinn pirring yfir skýjum og tuskuförum á eigin vínglösum síðustu X árin. Ég hugsaði alltaf sem svo að þetta sæist hvort eð er ekki þegar glösin væru full af rauðvíni og drakk þá bara oftar úr þeim fyrir vikið.

Þetta var töluvert puð þegar mesta geðveikin stóð yfir en það varð allt þess virði þegar yfirþjónninn afhenti mér 1.200 krónur eftir vaktina og tilkynnti að þetta væri minn skerfur af þjórfé (e. tips fyrir þá sem skilja bara það orð) kvöldsins. Launin fyrir þessa fimm tíma vakt voru um það bil 800 krónur FYRIR SKATT en þjórféð rennur beint í vasann og deilist jafnt milli allra sem eru á vakt viðkomandi kvöld. Allt eru þetta auðvitað norskar krónur og heildarupphæðin þá um 40.000 íslenskar krónur fyrir eina fimm klukkutíma vakt og ég geri ráð fyrir að taka um tólf vaktir á mánuði. Auðvitað sveiflast þjórféð eftir gestafjölda, ölvun þeirra og ánægju með þjónustuna en uppreiknað til eins mánaðar má reikna með að ég hafi töluvert hærri laun fyrir aukavinnu í uppvaski í Noregi en fyrir fullt starf sem fréttamaður hjá 365 miðlum á Íslandi. Fyrir utan þetta moka ég svo í mig ókeypis veislumat af metnaðarfullum matseðli hússins sem í bland við kreatín og þyngingarblöndur skilar sér í stöðugum bætingum í ræktinni. Og þetta er bara aukavinnan!

Þá er þetta skemmtilegur vinnustaður, mikill ferskleiki og samheldnin í eldhúsinu á við eina stóra fjölskyldu. Minnir mig einna helst á þegar ég var dyravörður á Gauknum í fyrra skiptið, árið 1995. Þar starfaði einstakur hópur af drykkfelldu fólki, þó með einni undantekningu sem var félagi minn í dyrunum, Ísfirðingurinn Jón Benóný Reynisson kraftlyftingamaður, betur þekktur sem Benni. Hann skreytti dyragætt gamla Gauksins árum saman, lengi ásamt félaga sínum Björgúlfi Stefánssyni frá Vestmannaeyjum, betur þekktum sem úlfinum. Þetta voru miklir menn vexti, einkum á breiddina. Mig minnir að Benni hafi verið innan við 170 sentimetrar á hæð en um 150 kíló á vigtinni og reif held ég upp 272,5 kíló í bekk á móti þegar mest var en fékk lyftuna dæmda ógilda út af einhverjum tittlingaskít, átti að hafa snert statífið á leið upp eða ekki stoppað nógu lengi niðri. En upp fór hlassið og það nægir mér alla vega. Þessi mikla líkamsþyngd hafði þó sitt að segja þegar kom að blóðþrýstingi. Benni var svo rauður í framan í afslöppun að öll umferð stöðvaðist gengi hann út á götuhorn en þyrfti hann að hlaupa upp stigann á Gauknum tók hann strax á sig fjólubláan blæ. Þessi öðlingur skipti nær aldrei skapi og er mesta ljúfmenni sem ég starfaði með í dyravörslu og sinnti ég henni þó lengi og víða á átta ára tímabili.

Einu skiptin sem Benni smakkaði áfengi var eftir árlegt bekkpressumót Kraftlyftingasambandsins þar sem hann bar oft sigurorð úr býtum. Þá birtist hann á Gauknum um kvöldið í hópi heljarmenna og keypti að jafnaði svo mikið sem hann gat borið af stórum bjórum og Jägermeister-flöskum. Svo þambaði hann þetta, rauður á lit, og ræddi mót dagsins í smáatriðum við viðstadda. Ég hef ekki séð Benna árum saman en skilst að hann sé járnsmiður einhvers staðar. Hann var 34 og 35 ára þegar við unnum saman og ætti að verða fimmtugur í mars núna í ár muni ég rétt.
klost
Annar frábær karakter á Gauknum var Óli eldhúsmella sem var aðstoðarmaður í eldhúsi, barþjónn og allt mögulegt annað. Hann var mjór og pervisinn stórreykingamaður og býsna hress í viðkynningu. Óli hafði þann merkilega eiginleika að hann losaði ætíð hægðir sínar á starfsmannaklósettinu uppi á nákvæmlega sama tíma og mátti stilla klukkuna eftir honum þar, 21:05 eða eitthvað álíka. Þetta færðu óprúttnir vinnufélagar sér einhvern tímann í nyt (ekki ég!!) og laumuðust upp tíu mínútum á undan Óla. Þar strengdu þeir glæra plastfilmu yfir klósettið en undir setuna svo sem minnst bæri á. Fylgdust menn svo spenntir með því þegar Óli skokkaði upp léttur í lund að ganga örna sinna. Heimildum ber ekki saman um það en sagnir herma að barþjónarnir á Amsterdam handan götunnar hafi heyrt öskrin skýrt og greinilega sem bárust ofan af efri hæð Gauksins þetta sumarkvöld fyrir 15 árum. Fyrr var oft í koti kátt.

Veitingabransinn getur verið glettilega skemmtilegur að vinna í þótt þar sé oft mikið puð fyrir lítið fé á ókristilegum tíma. Verkefnin eru misskemmtileg. Fyrst ég er byrjaður verð ég að nefna þá sögu af Nelly’s frá sumrinu 2001 þegar við Ingi Freyr Atlason, ágætur drengur úr Garðabænum, vorum þar við dyravörslu ásamt fleiri góðum mönnum. Nelly’s var jafnan þéttsetinn erlendum ferðamönnum á sumrin vegna hagstæðs áfengisverðs og eitt kvöldið þegar búið var að loka og moka mannskapnum út kom í ljós að eitt salernið var læst og búið að vera um nokkra hríð. Gamla teskeiðarbragðið dugði til að dýrka upp lásinn og blasti þá við listræn sjón: Frakki nokkur sat meðvitundarlaus á klósettinu með allt niður um sig. Hafði hann staulast inn á salernið ofurölvi og fengið þar heiftarlegan niðurgang, sem betur fer í klósettið. Ekki vildi þó betur til en svo að í miðjum klíðum gaus spýjan upp úr honum og fyllti hann nærhald sitt með þeim ósköpum þar sem hann sat og dó að því loknu áfengisdauða. Við áttum ekki önnur ráð en að kippa manninum upp af klósettinu og hysja upp um hann buxurnar með hraði. Við þá köldu kveðju vaknaði Frakkinn af værum blundi og hófst þegar ofsafenginn málflutningur á móðurmáli hans um aðfarirnar. Við gátum engu svarað nema ‘Je ne parle français’ og kvöddum hann með því á gangstéttinni fyrir utan.

Þetta gat verið skemmtilegt inn á milli.

Athugasemdir

athugasemdir