Upp úr sófanum…

back to schoolÉg er búinn að greina frá þessu í vinnunni og get því sagt það opinberlega. Við hjónin ætlum að rífa okkur upp úr því þægindalífi að vera “bara að vinna” og setjast á skólabekk í janúar. Ég fæ hroll bara við að skrifa þetta.

Í byrjun júní sóttum við um aðgang að námi í bore- og brønnteknikk hjá Exsto Holding a/s og fengum jákvætt svar 6. júní. Þetta er grunnnámskeið fyrir starfsfólk á borþilfari olíuborpalla og það sem best er, kennt er hér í Sandnes. Námið er sniðið að vinnandi fólki og kennt á átta helgum tímabilið janúar til maí. Að auki munum við sitja eftirtalin námskeið sem kennd eru á virkum dögum:

GSK Sikkerhetskurs (4 dagar)
SRC/VHF Radiosertifikat (1 dagur)
RM Riggerkurs (5 dagar)
G20 Fastmontert hydraulisk kran (5 dagar) (kennt í Bergen, best að kaupa regnhlíf strax)

Sumarfrísdagar verða notaðir í þetta og því þurfti ég að æla þessu út úr mér við næsta yfirmann og fá samþykki til að flytja fimm frídaga, sem ég á eftir fyrir þetta ár, með yfir áramót og nota í þetta námskeiðabrölt. Það var samþykkt umyrðalaust og með fylgdu skilaboð um að það væri dúndurhugmynd hjá mér að skella mér í þetta. Svona eiga hlutirnir að vera!

Ég er búinn að hugsa það fram og aftur síðan í fyrrahaust hvort ég eigi að voga mér út í þetta og, ef já, á hvaða tímapunkti. Ég ákvað í maí að hella mér bara út í þetta og gera það sem fyrst, þó ekki strax í haust. Þessi námskeiðapakki kostar tæpar 80.000 krónur (1,6 milljónir íslenskar) og tvöfalt það fyrst við erum bæði að fara. Það er því ljóst að frekar rólegur vetur er fram undan og enn ljósara að árlegur tveggja mánaða áfengisþurrkur minn verður annað árið í röð teygður upp í þrjá mánuði. Fyrsta glas eftir áramót verður því um páskana 2013 sem lofsamlega eru snemma á ferð. Um sömu páska verð ég líka 39 ára og hef þar með lokasprettinn að stóru bombunni 4-0! Þetta verður í fyrsta sinn síðan 2002 sem afmælisdaginn minn ber upp á laugardag svo það er ekki fræðilegur möguleiki að hann verði þurr.

Drífi ég mig ekki í þetta núna og reyni að sannfæra eitthvert olíufyrirtæki um að koma mér fyrir á palli geri ég það aldrei og veit að þá á ég eftir að sitja alla ævi og velta því fyrir mér hvort ég hefði átt að prófa. Verðið er ekki upphæð sem breytir lífi mínu þótt þetta fari í vaskinn og, fjandinn hafi það, þessi námskeiðastrolla gerir þá aldrei annað en að pimpa upp CV-ið.

Þetta er mitt fyrsta nám síðan ég lauk MA-námi á Íslandi vorið 2010 svo ég er svona þokkalega heitur enn þá. Þetta ætti að minnsta kosti ekki að verða sama höggið og þegar það nám hófst haustið 2008 og var mín fyrsta seta á skólabekk síðan hið hrikalega vor í Helsinki, 2003.

Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu og fróðlegt að fá innsýn í tæknilegri hliðar olíuvinnslu. Ég er hóflega bjartsýnn, þetta er þá alltaf reynsla þótt það verði ekki meira.

Athugasemdir

athugasemdir