Þyngdarlögmálinu storkað

vigtÞað er best að setja þetta fram hérna á síðunni svo ég geti ekki bakkað út úr þessu án afleiðinga (eins og ég sagði alltaf öllum að ég væri hættur að reykja þau 3.000 skipti sem ég hætti því á tímabilinu 1991 til 2000 – það lukkaðist í síðasta skiptið!). Við Kári bróðir unnum núna um helgina eið að hrikalegu samkomulagi á vettvangi líkamsþyngdar, svo geigvænlegu að hégómi á borð við Líkami fyrir lífið og önnur meðalmennska telst í besta falli brandari. Nú er það Líkami fyrir dauðann og ekkert annað!

Þetta gengur sem sagt út á það að við bræður, ég um það bil slétt 100 kíló og hann 122 kíló, mætumst í 105 kílóum 1. maí næstkomandi. Sem sagt 01.05 = 105. Nú kann einhverjum að þykja hallað verulega á hann, 17 kíló á móti fimm hjá mér. Svo er þó ekki, þetta er meira að segja nokkuð jafnt. Kári er í æfingu eftir að vera búinn að létta sig úr 136 kílóum (eða var það 133?) niður í 122 en minn líkami er þeim ósköpum gæddur að hver einustu 100 grömm í vöðvamassa umfram 100 kíló kosta óskaplegar æfingar og tilheyrandi át. Þyngstur hef ég á ævinni verið 104,9 kg, í maí 1999, svo ég ætla mér ekki ónýtara markmið en að vera þyngri en nokkru sinni eftir þrjá mánuði og eina viku. Spyrjum að leikslokum.

Kára get ég virt það til vorkunnar að hann er auðvitað lærður og starfandi kokkur í veislueldhúsi Bláa lónsins og fleyg eru gömul ummæli Stevens Seagal í einu af mörgum verkum hans, ‘Never trust a skinny cook.’ Það verða því blóð, sviti og tár á hvorum tveggja vígstöðvum nú á útmánuðum og vandi um það að spá hvaða dóm vigtirnar kveða upp á degi verkalýðsins. Ítarlega verður fylgst með málinu hér á atlisteinn.is og tölfræðinni dælt í lesendur vikulega. Ætla má að hér verði um ekki minni fjölmiðlasirkus að ræða en þegar Guðjón Sigmundsson, betur kunnur sem Gaui litli, grennti sig í beinni útsendingu veturinn 1996 – 1997 undir handleiðslu Sölva Fannars Viðarssonar. Meira um þetta á allra næstu vikum og aldrei að vita nema við bræður söfnum áheitum meðan á baráttunni stendur og styrkjum eitthvert gott málefni, til dæmis viðhald Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd.
bandidos
Ég skrifaði hérna á fimmtudaginn um að vélhjólasamtökin Bandidos ættu undir högg að sækja hjá borgaryfirvöldum í Stavanger fyrir að leigja blikklagerhúsnæði í Storhaug og nota sem klúbbhúsnæði í trássi við reglugerðir. Sagði Stavanger Aftenblad frá því að borgin kvartaði nú yfir þessu við leigusalann. Nú er komin framhaldsfrétt um málið þar sem greint er frá því að leigusalinn reiti hár sitt í angist og hafi sagt Bandidos upp leigusamningnum með samningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Kveðst hann ekki hafa haft hugmynd um að Bandidos ættu þarna í hlut (hélt hann að þetta væru blikksmiðir??). Á sama tíma virðast helstu keppinautarnir, Hells Angels, vera í betri málum þar sem þeir eiga eigið klúbbhús uppi í Klepp (það er sveitarfélag en ekki geðsjúkrahús hér í Rogaland) og ekkert við því að segja. Hvor tveggja samtökin hafa stækkað merkjanlega að félagatali síðustu ár í Noregi og ekki síst í Stavanger en þriðji hópurinn, Outlaws, lepur hins vegar dauðann úr skel hérna á Stavanger-svæðinu með fáa félaga og ekkert klúbbhús sem er kannski skiljanlegt þar sem leigumarkaðurinn er ekkert grín hérna.

Þess má að lokum geta að þetta er fyrsti pistillinn sem skrifaður er á nýju tölvuna mína, Toshiba Satellite L650-19P, sem Rósa gaf mér helminginn af í jólagjöf (ég keypti hinn helminginn svo ég er með alla tölvuna). Það var verulega erfið og þungbær ákvörðun að leggja Aopen Notebook-tölvunni sem ég keypti í Tölvuvirkni í Kópavogi í byrjun september 2003. Sá gripur hefur fylgt mér gegnum þykkt og þunnt án þess að hiksta en var kominn af léttasta skeiði og farinn að bera þess nokkur merki undir það síðasta. Í henni var 40 GB harður diskur sem manni þótti svakalegt þá. Nú eru nýjustu farsímar að nálgast þá minnisstærð. Þrátt fyrir aragrúa af myndum, óteljandi Word-skjöl og alls konar önnur gögn eru enn 19 GB ónotuð af þeim harðdiski eftir sjö og hálft ár. Í Toshiba-tækniundrinu nýja er 500 GB harður diskur og Intel Core i3-örgjörvi sem mun vera svakalegur miðað við eldri gerðir að því er Rikki hjá Miðneti segir. Mér mun ekki endast ævin til að nota nema brot af harða diskinum. Ég er lítið tæknifrík en eitt finnst mér hrein unun og það er að á þessari tölvu er talnaborð hægra megin á lyklaborðinu, svona eins og tíðkast hefur á lyklaborðum borðtölva frá upphafi. Þess hef ég saknað mjög á fartölvum síðustu ára. Hérna má sjá mynd af gripnum ásamt helstu upplýsingum. Ég get mælt með henni, þægilegur gripur á þægilegu verði.

Athugasemdir

athugasemdir