Twilight Zone-uppákoma í strætó og fleira

straetoÉg hef áður skrifað um að hér fjölgi Íslendingum eins og kanínum á fengitíma en það verður þó að segjast að sú uppákoma sem við fengum að reyna í gærkvöldi verður nú varla á hverjum degi. Þá fóru leikar svo að við vorum í nokkrar mínútur stödd í strætisvagni þar sem allir farþegarnir voru Íslendingar…og bílstjórinn líka. Reyndar voru farþegarnir bara þrír og vagnstjórinn svo fjórði Íslendingurinn en samt fullkomlega þess virði að segja frá því. Þetta sérstaka ástand varði í um það bil fimm mínútur, frá því að við stigum upp í vagninn hérna í Forus og þangað til norsk kona kom inn tveimur stoppistöðvum síðar. Þá var draumurinn búinn.

Bílstjórinn bauð löndum sínum frítt far og mér varð hugsað til þess að umræða varð um það á Íslandi í vetur að þar ferðuðust pólskir strætisvagnafarþegar alltaf ókeypis þegar þeir lentu á pólskum bílstjóra, auðvitað í óþökk Strætó bs. Nú erum við sem sagt komin í sama pakka hér í Noregi. Einhver norskur fjölmiðill sló því upp í fyrra að Íslendingar væru hinir nýju Pólverjar Noregs. Það hefur þá hér með fengist staðfest.

Egill Helgason er kominn í sumarfrí frá skrifmaraþoni sínu á eyjan.is. Ég verð að játa að þetta heggur nánast óþægilegt skarð í fremur fábreytt vefráp mitt sem yfirleitt er svona: Mbl.is, visir.is, ruv.is, eyjan.is (bara síða Egils), aftenbladet.no, aftenposten.no (OK, fyrir utan tölvupóst, heimabanka og síður fyrirtækja og stofnana sem ég er að skipta eitthvað við á hverjum tíma). Ég hef alltaf haft dálæti á skrifum Egils og lesið hann upp til agna síðan einhvern tímann vorið 2004. Hann er beittur og meinhæðinn þjóðfélagsrýnir að mínu viti og ótrúlega sleipur við að grafa upp skrif einhverra merkisfræðinga úti í heimi. Ég hlakka til að fá rauðu þrumuna tvíeflda úr sumarfríinu.

Og sumarfrí eru einmitt núna í algleymingi hér í Noregi. Júlí er alveg ófrávíkjanlegur sumarfrísmánuður Norðmanna og þess sjást heldur betur merki. Þjóðfélagið dettur alveg í dvala. Strætó fækkar til dæmis ferðum á helstu leiðum um helming frá 19. júní til 15. ágúst og ekur á hálftíma fresti í stað kortérs. Fjölmörg fyrirtæki, sem komast upp með það starfseminnar vegna, loka hreinlega bara í júlí og allt starfsfólkið fer í frí. Þetta gera til dæmis fyrirtæki í byggingariðnaði, malbikun og öðrum slíkum framkvæmdum sem hægt er að gera hlé á án þess að allt fari í steik. Þá þarf ekki að ráða neina sumarafleysingamenn sem er sennilega þægilegt.

Opinber þjónusta og allt sem tengist ferðamannaiðnaði rúllar auðvitað en þó ekki án undantekninga. Við rákum upp stór augu um daginn þegar við gengum fram hjá litlum kínverskum veitingastað sem við borðum stundum á og er skammt frá spítalanum. Þar var miði úti í glugga með þeim upplýsingum að allir væru í fríi og staðurinn opnaði aftur eftir tvær vikur. Menn eru lítið að stressa sig á vinnumarkaðinum hér í landi eins og ég fjallaði um í pistli fyrir stuttu.

Heilbrigðisgeirinn hægir allur á sér líka, aðgerðum er raðað í kringum sumarfríin og á gjörgæsludeildinni er því allt að þrefalt fleira starfsfólk en sjúklingar á sumum tímum dagsins. Þar með standa margar stofur tómar vikum saman sem gerir það ákjósanlegt að starfa við ræstingar á deildinni. Þessi rólegheit komu þó ekki í veg fyrir það um hádegisbilið í dag að maður nokkur fengi svo ógurlegan niðurgang í rúmi sínu að á tímabili var nánast allt hjúkrunarfólkið önnum kafið við að moka undan honum. Fnykurinn varð kynngimagnaður í molluhitanum á deildinni en að þessu sinni slapp ég við að koma að málinu eins og þegar gamla konan átti hlut að máli um daginn. Það eru því engin öfugmæli að heilbrigðisgeirinn ‘hægi á sér’.

Athugasemdir

athugasemdir