Norðmenn hafa heldur betur stimplað sig rækilega inn í Agnesar Braga-lookalike-keppninni sem nú fer um heimsbyggðina eins og eldur í sinu og hefur jafnvel skotið Wipeout ref fyrir rass í áhorfi. Það er fyrirtækið EiendomsMegler 1 sem þykir sérstaklega sigurstranglegt eins og sést á meðfylgjandi veggspjaldi þess sem prýðir byggingar hér í Forus. Ef þeir hafa ekki hreinlega fengið Agnesi til að sitja fyrir á spjaldinu hefur forritið Photoshop að minnsta kosti verið tækið ærlega til kostanna. Dæmi hver sem vill. Alt på ett sted!
Lifrarpylsuvandamálið, sem ég greindi frá hér á vefnum fyrir skemmstu, virðist heldur betur vera að leysast. Fyrst hafði hún Gulla frænka mín samband og benti á að reynandi væri að senda nágranna hennar í Hafnarfirðinum með pylsuna út en hann starfar hér í borginni og fer reglulega á milli. Næst datt ég niður á hina snilldarlegu vefverslun nammi.is sem virðist óhætt að mæla með fyrir alla brottflutta Íslendinga en þeir sérhæfa sig í íslenskum vörum, einkum ætum, sem erfitt er að koma höndum yfir víða erlendis.
Þegar ég fór að rýna nánar í heimasíðu nammi.is kom upp úr kafinu að aðstandendur verslunarinnar eru gamalreyndir viðskiptamenn, þeir feðgar Gústav Sófusson og Sófus Gústavsson sem urðu heimsfrægir í Garðabænum á einni nóttu árið 1986 þegar þeir opnuðu hina fornfrægu Sælgætis- og vídeóhöll við Garðatorg, sjoppu sem var um tíma eitt af viðskiptastórveldum Garðabæjar og jafnvel nágrennis.
Ég tók mig því til og pantaði tvær lifrarpylsur og tvo pakka af vínarpylsum auk Egils appelsíns frá feðgunum, svona fyrst námslánin komu loks í hús í dag, og ætla að láta reyna á þjónustuna. Reynist hún vel er upplagt að grípa í séríslenskt góðgæti 17. júní og fleiri tímamótastundir íslensku þjóðarinnar. Ítarlegar frásagnir af þessum upphafsviðskiptum munu birtast hér á atlisteinn.is í fyllingu tímans.
Ég kaus þessa leið meðal annars til að hlífa flugfarþegum við því að fara um alþjóðlegar flugstöðvar með SS lifrarpylsu en skemmst er að minnast þess þegar faðir minn aldraður endaði nánast í Guantanamo-fangelsinu á Kúbu þegar lifrarpylsa fannst í farangri hans við gegnumlýsingu tollvarða JFK-flugvallarins í New York. Fáir hafa sennilega áttað sig á því nema reyna á eigin skinni að þessi yrjótti fitukeppur (lifrarpylsan, ekki pabbi) er nauðalíkur semtex-sprengiefni af skjá gegnumlýsingarvéla svo Bandaríkjamenn settu þegar æðsta viðbúnaðarstig flugvallarins í gildi og hófu stífa leit í farangrinum. Ekki dró úr skelfingu þeirra þegar þessi dularfulli hnullungur fannst ofan í tösku og reyndist þá merktur SS ofan á grunsamlegt útlitið.
Þessi sérkennilegi misskilningur leystist þó að lokum enda pabbi staddur á Seltjarnarnesi en ekki í Guantanamo þegar þetta er ritað.
Að lokum ber að fagna því að samkvæmt nýjustu tölfræðiskýrslum yfir umferð á atlisteinn.is hefur lesendum í Rússlandi fjölgað um 100 prósent, úr engum í einn. Ég gef mér auðvitað að þarna sé Vladimír Pútín á ferð og býð hann hjartanlega velkominn í hóp lesenda.