Tuttugu ár þotin hjá – hugvekja

ggDagurinn í dag, laugardagur 3. október, er stórmerkilegur. Í kvöld hittist útskriftarárgangur 1989 úr Garðaskóla í Garðabæ og fagnar 20 ára útskriftarafmælinu. Þetta er myndarlegur árgangur, um 150 manns, og hefur hist á fimm ára fresti allar götur síðan 1994 þegar við héldum upp á fimm árin. (MYND: Musteri æsku okkar.)

Samheldni og þétt vináttubönd eru einkennandi fyrir þetta fólk en um leið var hópurinn þekktur fyrir að vera nokkurn veginn óalandi og óferjandi á skólabekk. Menn voru baldnir og óprúttnir auk þess sem margir hneigðust snemma til flöskunnar, þar á meðal undirritaður.

Eftir því sem árunum fjölgar hafa þessir fimm ára endurfundir orðið æ mikilvægari í hugum okkar, minningarnar æ ljúfsárari, samkenndin traustari og margir mun feitari en þeir voru. Við hittumst síðast á Grand hóteli í september 2004 þar sem mæting var með afbrigðum góð og stemmningin frábær. Nú eru hins vegar breyttir tímar og efnahagur þjóðarbúsins þannig að Zimbabwe er bara í góðum málum í samanburðinum. Þá þýðir lítið að smala öllu genginu á barina þar sem sólskinið er að vísu borið fram í glösum en heldur dýru verði keypt eftir nýjustu snilldarhugmyndir fjármálaráðherra sem ætlar heldur betur að fylla sparibaukinn á kostnað alþýðunnar.

Teitin verður því í fyrsta sinn haldin í heimahúsi, nánar tiltekið hérna í Mosfellsbænum hjá mér. Huggulegra, ódýrara og heimilislegra. Nokkuð hefur borið á tilhlökkun hjá hópnum og hafa þeir sem stunda samskiptavefinn Facebook ítrekað lýst því hvernig þeir haldi vart vatni af spenningi. Hér eru þrjú salerni svo það sleppur vonandi alveg.

Síðast en ekki síst mun leynigestur heimsækja samkomuna þegar leikar standa sem hæst svo eftir miklu er að slægjast. Það liggur við að maður hálfvorkenni þeim sem eru ekki í 1989 árgangi Garðaskóla.

Til hamingju með 20 árin, Garðbæingar til sjávar og sveita. Þetta er bara byrjunin.

Athugasemdir

athugasemdir