Þú getur tékkað út þegar þú vilt…

eaglesi…en þú ferð aldrei. Þessi fleygu orð margsönnuðust á sögulegum tónleikum snillinganna í Eagles á Viking Stadion hérna í Stavanger í kvöld (sérstaklega þegar við reyndum að komast þaðan með lest á eftir). Þetta var hreinlega ógleymanleg lífsreynsla… það litla sem ég man af henni. Veðrið lék við tónleikagesti, hiti og sól meira og minna í allan dag. Við mættum á svæðið rétt fyrir klukkan 19 og stemmningin á leikvanginum var eins og hún gerist best, þéttsetið upp um allar stúkur og hiti í mannskapnum.eaglesii

Við höfðum keypt okkur miða í stæði og sáum ekkert eftir því. Barirnir, stemman og bragurinn voru óneitanlega á þessu svæði. Þarna hittum við meðal annarra Einar Bauer félaga okkar sem við kynntumst á rónabarnum í Sandnes í fyrrasumar. Karlinn var þarna nýkominn úr hjartaaðgerð í banastuði og fórum við þegar að rifja upp okkar fyrstu kynni. Þá birtust Don Henley og félagar á sviðinu. Eftir það var ekki aftur snúið.eaglesiii (MYND: Stemmning eða hvað?!?!?)

Ég var með blaðamannapassann um hálsinn og átti því greiðan aðgang að fólki þegar myndataka var annars vegar. Sennilega tók ég um 150 myndir á tónleikunum. Svo veit ég ekki fyrr en ég stend á kamarnum og míg að ég heyri upphafstónana í meistaraverkinu Hóteli Kaliforníu. Ég dró trollið inn í snarhasti og hljóp öskrandi út á leikvanginn. Þar skullu á mér öskur fjöldans og saman öskruðum við enn meira. Drengirnir fluttu meistaraverkið eins glæsilega og við var að búast og í kjölfarið fylgdu litlu stórvirkin; Life in the Fast Lane, The Long Run, Desperado og allt hitt sem Eagles gerðu það gott með á árunum 1971 til 1980. Þeir höfðu engu gleymt.eaglesiv (MYND: Rörið, a.k.a. Elías Halldór Elíasson, í góðum gír.)

Til að kóróna þessa flottu tónleika var bakgrunnsteiknimyndasýning sem minnti mig einna helst á frábæra tónleika Kraftwerk í Kaplakrika 5. maí 2004 og voru þeir félagar í hljómsveitinni þar í forgrunni á gamansaman hátt auk þess sem inn var skotið ábendingum um heilbrigða sál í hraustum líkama en þessum tæplega sjötugu rokkenglum er víst erfiðara að gera til hæfis með heilsufæði á tónleikaferðum en sjálfum John Travolta með bláu M&M-kúlurnar sínar.eaglesv (MYND: Rörið, Lalli vinnuveitandi þess og Rósa.)

Þéttsetinn leikvangurinn náði að klappa sveitina þrisvar sinnum upp en þá var greinilega kominn háttatími og sást Glenn Frey nánast rölta um sviðið í náttfötunum. Ernirnir kvöddu saddan almúgann með virktum og ég gekk ríkari út af Viking Stadion í kvöld…enda í fyrsta sinn sem ég geng þaðan út. Þessir tónleikar voru upplifun og ég sofna sæll á eftir held ég. Timothy Schmit í Eagles er fáránlega líkur Helga I Jónssyni, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, hefur einhver velt því fyrir sér? Bara ímynda sér hann stutthærðan (Timothy það er að segja). (MYND: Teiknimyndasýning Arnanna.)

Athugasemdir

athugasemdir