Sá tími fer nú í hönd að geitungar og önnur skordýraflóra með vængi, brodda eða fleiri fætur en ég fer að gerast allatkvæðamikil og nærgöngul við mennska sólarunnendur sem hafa ekki annað til saka unnið en að tylla sér út á svalir eða í garð með hvítvínsdreitil.
Geitungar virðast hinar drykkfelldustu pöddur en þeir sogast að öllu áfengu, mér og mat. Nokkrum sinnum hefur komið til háskalegs návígis og ríkir eins konar kaldastríðsástand þar sem báðir aðilar vígbúast og horfa svo í dimmri þögn yfir ósýnilega landamæralínu. Ég er reyndar ekki búinn að fá mér járntjald enn þá en hver veit hvað gerist í næstu för minni í hinn norska rúmfatalager Jysk?
Einu sinni hefur reyndar komið til þess að ég neyddist til að ráða geitung af dögum. Þetta var í Garðabænum á vordögum ársins 2000. Slæddist þá einn inn úr sólskini og hita um opinn glugga og gerði þegar harða hríð að mér, merkilegt nokk, því tegundin heldur almennt geðprýði fram á haustmánuði en verður þá lítt við alþýðuskap og gerir vopnabrak og gný mikinn.
Strax varð ljóst að það var annaðhvort ég eða hann. Það sem varð mér til lífs var að ég var í miðju kafi að skrifa BA-ritgerðina mína sem fjallaði um breytingar á beygingu einnar sagnar á 13. – 15. öld. Af þeim sökum lá rit Þjóðverjans Oscars Bandle, Die Sprache der Guðbrandsbiblía, við hlið mér á borðinu (ritröðin Bibliotheca Arnamagnæana, XVII. bindi. Ejnar Munksgaard, Kaupmannahöfn 1956), mikill doðrantur, illlæsilegur og hroðalegur, er varð mér nú að vopni.
Ég greip ritið þegar, tvíhenti það yfir höfði mér líkt og Sæmundur á selnum biblíuna og laust hið suðandi illfygli svo þegar stóð í heila. Klessan á bakhlið Oscars Bandle var allófalleg en fjöri mínu borgið að sinni þar sem óvætturin (kvenkynsmynd þessa nafnorðs er upprunalegri) fékk ekki komið atgeir sínum við. Það versta var að bókin var fengin að láni frá Þjóðarbókhlöðunni en ég hafði hana bara neðst í bunkanum þegar ég skilaði öllum heimildunum.
Þeir hafa ekki haft samband enn þá.